Ódýrara hjá sálfræðingi eða geðlækni?

Spurning:
Get ég pantað ódýrara hjá sálfræðingi gegnum heimilislækninn minn? Kostar tíminn hjá sálfræðingi alltaf 5000.- er ódýrara að fara til geðlæknis? Er geðlæknir næstum það sama?

Svar:
Sæl.
Ekki er hægt að fá ódýrara hjá sálfræðing í gegnum tilvísun frá heimilislækni. Sálfræðingar eru ekki með samning við Tryggingastofnun og því eru ekki reglur um verð. Því er verð hjá sálfræðingum mismunandi og ekki hægt að bera saman verðmun hjá sálfræðingi eða geðlækni. Geðlæknar eru sérfræðilæknar og hafa læknisfræði sem grunnmenntun. Sálfræðingar hafa aftur á móti grunnmenntun í almennri sálfræði en taka síðan framhaldsnám til réttinda. Að mörgu leyti vinna sálfræðingar og geðlæknar sams konar störf t.d. viðtalsmeðferð en síðan eru ákveðnir þættir í starfi þeirra mismunandi.
Kveðja
Brynjar Emilsson sálfræðingur