Of hátt 0eosinofile

Er með 05 i Eosinofile (41)
Er með 44 i B HbA1c (28 42)
P Vit B9 5,7
Hvað þíðir það að vera með þetta of hátt

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er erfitt að meta gildi í blóðprufum út frá stökum gildum og líka þegar maður veit ekki neitt um einstakklinginn.

Eosinofile eða rauðkyrningar gegna stóru hlutverki í baráttunni gegn veirum og sníkjudýrum, Þeir hafa líka hlutverki að gegna í ofnæmisviðbrögðum líkamans og oft má sjá aukningu rauðkyrninga hjá þeim sem hafa króníska bólgusjúkdóma eða asthma. Gildi í blóðprufu er á mörkum þess að vera eðlilegt en gætir hafa verið með einhverja sýkingu sem líkaminn er að vinna á.

Styrkur á HbA1c í blóði endurspeglar meðalstyrk á glúkósa síðustu 5-12 vikurnar. Hátt gildi á HbA1c er tengt aukinni áhættu á síðkomnum fylgikvillum sykursýki. Hækkun á blóðsykri veldur því að glúkósi binst við hemóglóbín og glýkósýlerað hemóglóbín hækkar. Þessi tenging milli glúkósa og hemóglóbíns er óafturkræf og glýkósýlerað hemóglóbín helst hækkað í blóði meðan rauðu blóðkornin lifa. Meðal líftími rauðra blóðkorna er 120 dagar. Þegar HbA1c er mælt er sá hluti hemóglóbíns sem er bundinn við glúkósa ákvarðaður, svokallað glýkósýlerað hemóglóbín. Túlkun á niðurstöðum HbA1c er byggð á því að rauðu blóðkornin hafa eðlilegan líftíma. Þegar blóðsykur er hár þá hækkar þetta gildi, þ.e. einkum hjá sykursýkissjúklingum, sem ekki hafa fengið fullnægjandi meðferð. Gildi þitt er örlítið hækkað sem þarf ekki að þýða neitt og erfitt að meta þar sem maður hefur ekki önnur gildi með.

Fólat eða Vit B9 þörf líkamans er mismunandi á mismunandi æviskeiðum. Fæðutegundir sem innihalda mikið fólat eru m. a.: lifur, baunir, hnetur, spínat og annað grænmeti. Skorts gætir fyrst og fremst í vefjum með hraða umsetningu, svo sem í beinmerg og meltingarfærum. Lækkun á fólati sést við aukna fólatþörf (meðganga, aukin framleiðsla rauðra blóðkorna), minnkað frásog, minnkaða neysla eða aukið tap í líkamanum. Methotrexat, trimetoprim og sulfasalazin geta valdið fólatskorti. Gildi þitt er rétt neðan við mörkin og gæti þýtt smá skort en aftur erfitt að meta þar sem maður hefur ekki önnur gildi til viðmiðunar.

Vona að þetta hjálpi eitthvað. Gangi þér/ykkur vel.

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.