Offitulyfin Reductil og Acomplia

Fyrirspurn:


Mig langar til að forvitnast um hver munurinn er á offitulyfjunum Reductil og Acomplia ? Ég hef verið að taka inn Reductil í nokkra mánuði og ekki fundið neinn mun þó mataræðið sé breytt,kílóin minnka ekkert.Er að spá hvort Acomplia mundi bara hafa sömu áhrif ?

Aldur:
34

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl,

Bæði þessi lyf virka með því að draga úr matarlyst og valda þannig þyngdartapi. Aukin hreyfing samhliða inntöku lyfjanna eykur enn líkur á þyngdartapi. Hinsvegar eru efnin efnafræðilega óskyld og verkunarmáti þeirra er ólíkur.
Sibutramine, Reductil, sem þú hefur verið að taka er byggt út frá amfetamíni og virkar á svipaðan hátt enda var amfetamín mikið notað áður fyrr sem megrunarlyf. Út frá því hafa nýrri lyf, sem eru mun öruggari í notkun en amfetamínið, verið þróuð og á það við um Reductil. Reductil virkar með því að láta taugaboðefnin noradrenalín, serotonin og dopamin vera lengur í blóðinu en þessi boðefni valda vellíðan og þ.á.m. mettunartilfinningu.

Rimonabant eða Acomplia er aftur á móti svokallaður cannabinoid antagonisti. Cannabinoid viðtakar í líkamanum hafa með stjórn á fæðuinntöku og matarlyst að gera en Acomplia tegnist þessum viðtökum og hemur virkni þeirra, þannig minnkar matarlystin. Marijuana er cannabinoid agonisti sem þýðir að þegar efnið bindst viðtökunum örvar það þá sem veldur aukinni matarlyst. Að þessu gefnu má vel vera að annað efnið virki betur á þig en hitt, það er oft mjög einstaklingsbundið hvernig lyf virka á fólk.

Ég tel að þú ættir að nefna þetta við þinn lækni ef þér finnst ekkert ganga og ákveða framhaldið í samráði við hann.

Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur