Ofnæmislyf á meðgöngu?

Spurning:
Mig vantar upplýsingar um lyf sem ég hef verið að taka, en ég er gengin 33 vikur. I byrjun meðgöngu tók ég ofnæmislyf sem heitir Histal, (sem sagt fyrstu 4 vikur meðgöngunnar) en læknirinn minn ráðlagði mér að hætta að taka það inn og gaf mér í staðinn lyf sem heitir Cetirzin frá Biochemie og í því er cetirizin, dihydroclorid 10 mg, lactos, monohydr 66,40 mg. Þetta hef ég verið að taka inn frá því í ágúst, ekki kannski reglulega en meira i byrjun en nú upp á síðkastið. Nú hef ég lesið á netinu og í flestum lyfjabókum að þetta lyf eigi ekki að gefa á meðgöngu þar sem ekki er vitað hvort það hafi áhrif á fóstur.

En það sem mig langar til að vita er hvort að þessi tvö lyf innihaldi ekki nákvæmlega það sama og hafi þá sömu áhrif, og hver er ástæðan fyrir því að læknirinn minn vildi frekar gefa mér Cetirzin en Histal. Og hvort að einhver skaði geti hafa orðið af þessari lyfjatöku minni og hvaða áhrif þetta gæti hafa haft á fóstrið ef einhver. með fyrirfram þökk og von um heiðarlegt svar.

Kveðja frá áhyggjufullri móður

Svar:
Bæði Cetirizin Biochemie og Histal innihalda sama virka efnið, sem heitir cetirizin. Verkun, aukaverkanir og önnur áhrif þessara lyfja eiga því að vera sambærilegar. Það er rétt að ekki er mælt með notkun þessara lyfja á meðgöngu, en það er eingöngu vegna þess að takmörkuð reynsla er af notkuninni án þess að neitt bendi til þess að lyfið hafi skaðleg áhrif á fóstrið. Það er því ákvörðun þín í samráði við lækni sem ræður því hvort þú tekur þetta lyf á meðgöngu eða ekki. Hvað ræður ákvörðun læknisins um val á lyfi í þessu tilviki veit ég ekki en ekki get ég séð að áhrif á fóstur eða meðgöngu ráði þar um. Hins vegar skil ég ekki hvernig læknirinn getur látið þig hafa Cetirizin Biochemie (ég geri ráð fyrir að þú hafir fengið lyfið hjá lækni hér á landi). Þetta lyf er ekki skráð á Íslandi og er því öll dreifing á því óheimil hér nema með sérstakri undanþágu frá Lyfjastofnun. Það er þó skráð víða í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur