Ofsóknarótti?

Spurning:
Komið þið sæl,
 
Ég sný mér til ykkar þar sem ég veit ekki alveg hvar er best að byrja.  Móðir mín virðist vera með ofsóknarótta (paranoid), sem birtist í því að hún trúir því að hver einasti bíll sem keyrir á eftir henni, og nánast hver einasta manneskja sem á vegi hennar verður, sé að ofsækja hana.  Hún trúir því að það sé búið að koma fyrir hlerunartækjum í kringum húsið og að síminn sé hleraður, svo fátt eitt sé talið.  Það virðist engin leið að fá hana til að hugleiða það að þetta kunni að vera hjá henni sjálfri.  Eða eins og hún hefur sjálf sagt „ég er ekkert að búa þetta allt til“.  Hvert getum við aðstandendur hennar snúið okkur?  Er nokkur leið að hjálpa henni, nema hún sjái sjálf að eitthvað sé ekki í lagi?
 
Með bestu kveðju og fyrirfram þökk,
Svar:
Kæra

Vandamálið sem hér um ræðir er mjög erftitt viðfangs þar sem móðir þín virðist ekki átta sig á því sjálf að hún er haldin ranghugmyndum varðandi þessar ofsóknir en engu að síður eru nokkrar leiðir færar til þess að veita henni hjálp.

Besta leiðin væri auðvitað að reyna að koma henni í skilning um að ofsóknirnar og hlerunartækin eru ekki raunveruleg o.s.frv. og að hún verði að leita sér aðstoðar til þess að fá greiningu og viðeigandi meðferð.  Þetta getur auðvitað reynst erfitt og jafnvel ómögulegt ef einkennin eru á háu stigi eins og reyndar virðist vera af lýsingunni að dæma. 

Þið aðstandendurnir getið byrjað á því að hafa samband við lækni móður þinnar.  Læknirinn getur síðan aðstoðað ykkur með að fá úrskurð um nauðungarvistun ef engum tekst að tala hana inn á að fara sjálfviljug til geðlæknis eða á bráðamóttöku geðsviðs.

Með nauðungarvistun er átt við það þegar sjálfráða maður er færður nauðugur á sjúkrahús og haldið þar.  Hægt er að vista hinn veika í allt að þrjár vikur án þess að sjálfræðissvipting fari fram.  Eins og gefur að skilja er nauðungarvistun mjög óþægileg og oft á tíðum sársaukafull leið.  Hins vegar er hún nauðsynleg þegar fólk er alvarlega veikt án þess að gera sér grein fyrir því sjálft.

Hvort sem þið veljið þessa leið eða ekki er mikilvægt að þið komist í samband við geðlækni sem getur leiðbeint ykkur með þetta allt saman.

Ef illa gengur að fá þessa aðstoð eða ef þið viljið frekari leiðbeiningar er ykkur velkomið að hafa samband við undirritaða hjá Geðhjálp.

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel.
Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.