Ógleði á meðgöngu – hvað er til ráða?

Spurning:

Góðan dag.

Ég er 19 ára og bý úti á landi. Ég á von á mínu öðru barni í júlí, fyrra barnið er 7 mánaða núna. Þannig er mál með vexti að ég hef svo hrikalega morgunógleði að það er að gera út af við mig. Á fyrri meðgöngunni byrjaði ógleðin ekki fyrr en á 3. mánuði og stóð fram á 5. mánuð, en nú held ég bókstaflega ENGU niðri. Mér líður svo illa að ég get lítið sinnt barninu mínu, og það er lítið um hjálp, því maðurinn minn er í þannig vinnu. Ég hef heyrt að það sé gott að borða ristað brauð og læknirinn minn lét mig hafa töflur sem eiga að slá á ógleðina. Ég þori ekki að taka þær inn, því aukaverkanirnar eru þær að ég sef og sef… sagði hann. Ég veit að maður á ekki að láta sig verða svangan, en það er erfitt þegar maður heldur engu niðri. Það segir sig sjálft að maginn tæmist og maður verður svangur. Ég veit ekkert hvað ég á að gera, læknirinn hérna segir að þetta sé allt eðlilegt og eigi að vera svona, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera!

HVAÐ á ég að gera?

Svar:

Sæl.

Svona mikil meðgönguógleði er hvimleið en getur þó verið eðlileg. Stundum er þó eitthvað að sem ýtir undir þessa miklu ógleði. Þú ert búin að hitta lækni sem væntanlega hefur útilokað að svo væri. Þá er bara að takast á við þetta eins og hægt er. Þú verður að fá hjálp með barnið þitt. Er ekki einhver vinkona eða ættingi þarna nálægt sem væri til í að vera þér innan handar svo þú getir hvílt þig? Þreyta gerir nefnilega ógleðina verri. Þú verður að nærast og sérstaklega fá vökva í kroppinn. Ef þvagið er mjög dökkt bendir það til að þú sért að verða hættulega þurr og þá verður þú að tala aftur við lækninn. Það sem hefur gefist best hjá konum með mikla meðgönguógleði er að drekka litla sopa af ísköldum drykkjum sem ekki eru mjög bragðmiklir eins og þynntur eplasafi, 7up sem búið er að hrista gosið svolítið úr og dauft te eða jurtate með smávegis sykri. Forðastu mjólkurdrykki og allt sem er bragðmikið. Eins skaltu forðast feitan og brasaðan mat og reyndu að fá einhvern annan til að elda. Farðu út í gönguferð á meðan. Gönguferðir úti í hreinu lofti geta oft dregið úr ógleði. Svo eru ávextir oft góðir og mörgum konum finnst gott að narta í grænmeti eða þurrt kex. Það getur verið gott að vera bara á beit með sífelldu narti. Ekki drekka með mat en þeim meira milli máltíða.

Venjulega gengur svona ógleði yfir á 4-5 vikum – en ef hún heldur svona áfram eða fer versnandi næstu vikuna, talaðu þá óhikað við lækninn. Stundum getur þurft að leggja konur inn á sjúkrahús til að rétta við vökvajafnvægið. Mikið ójafnvægi á því getur nefnilega líka ýtt undir ógleðina og þannig orðið vítahringur ógleði og vökvaójafnvægis.

Gangi þér svo vel í þessu öllu.

Dagný Zoega, ljósmóðir