Óhætt að taka Thermoderine?

Spurning:
Góðan daginn. Mig langaði aðeins að fá upplýsingar um heilsubótarefni sem kallast Thermoderine og inniheldur smá magn af efedrini, ginger root, og guarana extract ásamt nokkru öðru. Mig vantar að vita hvort að ekki sé örugglega óhætt að taka þetta (þetta er selt sem megrunarlyf)? Mér var ráðlagt að taka inn 4 töflur á dag plús fjölvítamín (ekki á Íslandi). Er efederin ávanabindandi?
Með kveðju

Svar:

Komdu sæl. Nei, ég þekki ekki téð ,,heilsubótarefni” en aftur á móti kannast ég vel við innihaldsefnin þ.e. efedrín, ,,gingerrótina” og gúarana. Hér er einfaldlega um örvandi efni að ræða sem auka jú brennslu en geta svo sannarleg leitt til neikvæðra aukaverkana eins og hækkandi blóðþrýstings, magaslæmsku, skjálfta, svefnleysis og óreglulegs hjartsláttar. Já, efedrín er ávanabindandi enda um amfetamínlíkt efni að ræða.

Ég ráðlegg engum sem hafa áhuga á að léttast að neyta örvandi efna. Lykillinn að því að létta sig á heilbrigðan máta er að ráðast að rótum vandans sem iðulega er  rangt  mataræði og/eða of lítil hreyfing. Á þeim þáttum þarf að taka.

 Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur.