Spurning:
Ég er kona rúmlega fimmtug og greindist með bakflæði fyrir u.þ.b. hálfu ári. Læknirinn sagði að gatið við magaopið væri nokkuð stórt og ég gæti hafa verið með það lengi. Ég fékk töflur við þessu sem ég þarf að nota alla æfi. Þær virka ótrúlega vel og líðan mín ér öll önnur. Asminn og hæsin á hröðu undanhaldi. Ég er samt að velta fyrir mér hvers vegna ekki var minnst á að „sauma fyrir gatið“ og spara þar með lyfjakostnaðinn, sem er mikill hjá mér en óheyrilega mikill hjá Tryggingastofnuninni. Ég er hraust og spræk að öðru leyti.
Takk fyrir doktor.is sem ég nota mikið til uppsláttar.
Svar:
Það er eðlilegt að ræða alla meðferðarmöguleika þegar sjúkdómsgreining liggur fyrir. Það er hins vegar mikilvægt að reyna einfaldari meðferð í fyrstu, sérstaklega þegar hugsanlega fylgikvilla vélindabakflæðis eru til staðar eins og hjá þér (einkenni frá öndunarfærum). Þessi einkenni hafa gengið til baka við meðferðina, sem þú ert að fá og því lliklegast að þau stafi af vélindabakflæðinu .
Langtíma lyfjameðferð getur verið góður kostur alveg eins og skurðaðgerð. Þetta kann þó að vera einstaklingsbundið hvaða meðferð hentar best. Einnig þarf að gera ákveðna rannsókn á vélinda (þrýstingsmæling – manometria) áður en til skurðaðgerðar kemur til að tryggja besta mögulegan árangur. Ekki snýst þetta bara um peninga. Mikilvægt er að þú ræðir þessi mál frekar við þinn lækni. Valið verðum oft sjúklingsins þegar hann hefur fengið allar upplýsingar um frekara eftirlit og meðferðarmöguleika, kosti þeirra og galla.
Gangi þér vel. Ásgeir Theodórs