Spurning:
Sæll.
Ég er nú bara að spyrja almennt um þetta. Hvað felur segarek (blóðhlaup) í sér, hver er hættan á því? Nú tek ég Yasmín en hef verið að taka Mercilon. Er desogestrel í Yasmín? Ég spyr vitaskuld lækninn minn um þessi mál en mér þætti mjög gott að fá smá svar um hvort sé vitað mikið um þessa könnun, hvort betra sé að snúa sér að eldri tegundum að pillunni o.s.frv. Það er ekki mikilvægt fyrir mig að fá svar þar sem ég giska að þið fáið mikið af fyrirspurnum á dag en þetta gæti orðið góður pistill.
Kveðja.
Svar:
Sæl.
Þau hormónalyf sem skráð eru á Íslandi og notuð eru til getnaðarvarna eru (innihaldsefni eru efst og fyrir neðan heiti á „pillu” tegundum sem hafa viðkomandi innihaldsefni: Dróspírenón og östrógen
Yasmin
Noretísterón og östrógen (etinýlestradíól)
Trinovum og Trinovum 28
Levónorgestrel og östrógen (etinýlestradíól)
Gynatrol
Microgyn
Neogynon
Tetragynon
Trinordiol (kaflaskipt lyf)
Triquilar (kaflaskipt lyf)
Desógestrel og östrógen (etinýlestradíól)*
Marvelon
Mercilon
Gracial (kaflaskipt lyf)
Gestóden og östrógen (etinýlestradíól)*
Gynera og Gynera 28
Harmonet
Meloden
Lýnestrenól (prógestógen)
Exlutona
Levónorgestrel (prógestógen)
Levonova (lyfjalykkja)
Etónógestrel (prógestógen)
Implanon (lyf gefið undir húð)
Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun (Sérlyfjaskrá) er hætt við segamyndun í æðum fyrir öll ofangreind lyf. Að öllu jöfnu er hættan lítil en hún er mismikil samt sem áður. Talið er að líkurnar séu minni hjá getnaðarvarnartöflum sem innihalda eingöngu prógestógen. Samkvæmt bresku vísindamönnunum eru meiri líkur á segamyndun við notkun nýrri gerða blandaðra hormónagetnaðarvarna (stjörnumerkt hér að ofan) en þeirra eldri. Munurinn er ekki mikill (1,7% meiri líkur með nýrri lyfjunum en þeim gömlu skv. mbl.is) en það verður samt að hafa þetta í huga og láta lækni velja hentuga getnaðarvörn og fylgjast vel með einkennum segamyndunar (sjá neðar).
Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar úr Sérlyfjaskrá:
Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til samhengis milli notkunar samsettra getnaðarvarnartaflna og aukinnar hættu á segamyndun í bláæðum (segamyndun í djúpum bláæðum, blóðreksstífla í lungum) og segamyndun í slagæðum (hjartadrep og skammvinn blóðþurrðaráföll). Þessar rannsóknir hafa sýnt að hættan á segareki í bláæðum (VTE) eykst við notkun getnaðarvarnartaflna til inntöku. Áætluð tíðni segareks í bláæðum (VTE) hjá þeim sem nota getnaðarvarnartöflur til inntöku með lágu östrógeninnihaldi (< 50 míkróg af etinýlestradíóli) er 10-15 tilfelli á 100.000 kvenár miðað við 4 tilfelli á 100.000 kvenár hjá þeim sem ekki nota töflurnar. Hinsvegar, er áhættan minni en í tengslum við þungun (þ.e.a.s. 60 tilfelli á 100.000 þungunarár). Örsjaldan hefur verið greint frá segamyndun í öðrum æðum hjá konum sem nota getnaðarvarnartöflur, t.d. í lifur, garnahengi, nýrum eða í slagæðum og bláæðum sjónhimnu. Deilt er um hvort þessi tilvik tengjast notkun hormónagetnaðarvarna eða ekki. Meðal einkenna segamyndunar í bláæðum og slagæðum geta verið: Óvenjulegur sársauki í fótlegg og/eða bólga, mikill og skyndilegur verkur fyrir brjósti, hvort sem hann leggur út í vinstri handlegg eða ekki, skyndileg andþrengsli, skyndilegt hóstakast, óvenjulegur, sár og þrálátur höfuðverkur, skyndilegur sjónmissir, að hluta eða að fullu, tvísýni, óskýrt tal eða málstol, svimi, örmögnun með eða án staðbundinna krampakasta, slappleiki eða mjög greinilegur dofi sem skyndilega kemur fram í annarri hlið líkamans eða í ákveðnum hluta hans, hreyfitruflanir, bráðir kviðarholsverkir. Hættan á segareki í bláæðum hjá notendum getnaðarvarnartaflna sem innihalda blöndu hormóna eykst með: Hækkandi aldri, fjölskyldusögu um segarek í bláæðum hjá foreldri eða systkini á yngri árum. Ef grunur leikur á að kona hafi arfgenga tilhneigingu til slíks, ber að vísa henni til sérfræðings áður en ákveðið er að nota getnaðarvarnartöflur. Langvarandi hreyfingarleysi, stórum aðgerðum, aðgerð á fæti eða meiriháttar áverkum. Í slíkum tilvikum er ráðlegt að hætta notkun taflnanna (a.m.k. fjórum vikum fyrir ráðgerða skurðaðgerð) og byrja ekki aftur fyrr en tveimur vikum eftir að konan er komin á hreyfingu aftur. Íhuga skal meðferð með segavarnarlyfjum ef notkun taflanna hefur ekki verið hætt fyrir aðgerð, offitu (þyngdarstuðull yfir 30 kg/m2). Deilt er um hugsanleg áhrif æðahnúta og grunnlægrar segabláæðabólgu við myndun eða aukningu á blóðreksstíflu í bláæðum. Hættan á segareki í slagæðum hjá notendum getnaðarvarnartaflna sem innihalda blöndu hormóna eykst með: Hækkandi aldri, reykingum (ráðleggja skal konum yfir 35 ára aldur að reykja ekki ef þær vilja nota samsettar getnaðarvarnartöflur), röskun á lípópróteinmagni í blóði, háþrýstingi, hjartalokukvilla, gáttaflökti. Hafi kona fleiri en einn áhættuþátt fyrir bláæ
ða- eða slagæðasjúkdómi, eða einn áhættuþátt á alvarlegu stigi, getur það einnig verið frábending. Einnig ber að íhuga möguleika á blóðþynningarmeðferð. Leggja skal sérstaka áherslu á það við notendur getnaðarvarnartaflna að hafa samband við lækni ef einkenna verður vart um segamyndun. Ef grunur leikur á segamyndun eða það hefur verið staðfest, ber að hætta notkun getnaðarvarnartaflna. Byrja skal að nota aðra viðeigandi aðferð til getnaðarvarnar vegna þess að blóðþynningarmeðferð (kúmarín) getur valdið fósturskaða. Hafa ber í huga aukna áhættu á segareki þegar kona liggur á sæng. Aðrir sjúkdómar sem hafa tengst aukaverkunum frá æðum eru sykursýki, rauðir úlfar, blóðlýsuþvageitrunarheilkenni (haemolytic uremic syndrome) og langvinnur bólgusjúkdómur í þörmum (Crohns sjúkdómur eða sáraristilbólga). Aukin tíðni mígrenikasta svo og ef þau verða verri við notkun getnaðarvarnartaflna (sem gæti verið fyrirboði um heilablóðfall) getur verið ástæða til að hætta strax notkun getnaðarvarnartaflnanna.
Vonandi varpar þetta einhverju ljósi á málið.
Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur