Pillan Meloden og sveppasýking

Spurning:

Komdu sæll Arnar.

Mig langar til að spyrja þig ráða. Þannig er að ég er nýbyrjuð á pillu sem heitir Meloden, og þegar ég hef haft blæðingar (sem reyndar eru afar litlar og þægilegar) er eins og sýrustigið í leggöngunum raskist. Ég hef ekki útferð eða óþægindi, en það kemur einkennilega súr lykt. Fyrst hélt ég að þetta væri eitthvað tilfallandi og notaði Vivac stíla í 6 daga og þetta lagaðist við það. En svo endurtekur þetta sig við næstu blæðingar. Getur þetta verið eitthvað tengt þessari pillutegund? Ég er 37 ára og búin að vera á hinum ýmsu getnaðarvörnum en hef aldrei fundið fyrir neinu þessu líkt fyrr. Ég hef verið gjörn á að fá sveppasýkingar en þetta líkist þeim ekkert.

Með fyrirfram þakklæti.

Svar:

Sæl.

Sýrustigið getur breyst á pillunni en sennilega ertu að lýsa miklum sveppum (og ekki neinu skaðlegu) og gætir prófað að kaupa þér sveppastíla í apóteki og sjá hvort þú lagist ekki.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.