Pissa 10-12 sinnum á dag?

Spurning:
Góðan dag.
Ég er rúmlega 40 ára og hef spurningu varðandi ofvirka þvagblöðru. Nú fæ ég skyndilega þörf til að pissa og það 10-12 sinnum á dag og þrisvar á nóttunni. Það er oft þannig að ég næ ekki á klósettið í tíma. Maðurinn minn benti mér á að leita læknis en ég vil vita:  Hvað er til ráða? Hvaða lyf eru gefin? Eru þau með aukaverkanir? Með von um skjót svör. kv.

Svar:
Það er ljóst að þú hefur sennilega kynnt þér vandamálið að e-u leyti þar sem þú notar hugtakið ,,ofvirk þvagblaðra“. Þetta vandamál er algengt og orsakir mismunandi meðal kvenna og karla og meðferðin ræðst því af undirliggjandi orsök ef hún finnst eða er þekkt. Mikilvægt er að útiloka sýkingu. Ef ekki er um að ræða ,,augljósar“ skýringar, þá er í upphafi iðulega reynd lyfjameðferð við einkennunum (að undangenginni þvaglátaskrá) og gefnar ráðleggingar varðandi þvaglát og drykkju áður en frekari rannsóknir eru gerðar. Sumir læknar telja rétt að gera ítarlegri rannsóknir en hefðbundna líkamsskoðun og þvagskoðun í upphafi. Algengasta lyfið sem notað er í dag við þessum einkennum heitir Detrusitol Retard og er tekið einu sinni á dag. Helstu aukaverkanir eru munnþurrkur og hægðatregða, sem reyndar flestir ráða vel við og aukaverkanir minnka oft með tímanum. Lyfið heldur einkennum niðri en læknar ekki ástandið (sjúkdóminn). Framhaldið ræðst síðan af svörun við þessari meðferð, þ. e. ef hún hefur verið valin sem fyrsti kostur.
 
Bestu kveðjur,
 
Valur Þór Marteinsson,
þvagfæraskurðlæknir