Plattfótur

Sælt veri fólkið. Ég veit hvernig plattfótur lítur út, en hvað er hægt að gera við því?
Ef ekkert verður gert.. hvað þá? Barnið er 4ra ára, og það hefur enginn minnst á þetta, en er mjög áberandi!
Með fyrirfram þökk.

Sæl

í leiðbeiningum útgefnum frá Landlæknisembættinu varðandi líkamsskoðun hjá börnum kemur eftirfarandi fram:

Flatfótur (pes plano valgus)
Fætur smábarna eru venjulega mjög mjúkir og hjá smábörnum er fitukoddi í ilinni. Flatfótur samfara valgustilhneigingu er þess vegna algengur hjá börnum yngri en fjögurra ára. Telst ástandið eðlilegt, svo fremi sem þau hreyfa fæturna eðlilega og fóturinn fái eðlilega lögun með holfæti þegar staðið er á tá eða stóratá extenderuð.
Notkun innleggja breytir ekki þróun hins venjulega flatfótar (plattfótar)
Sé um verulega aflögun að ræða er þó ástæða til nánari athugunar.
Eftir fjögurra ára aldur er fóturinn stöðugri. Ekki er ástæða til að meðhöndla plattfót án valgusstöðu. Sé um greinilega valgusstöðu að ræða (hásinin víkur frá lóðlínu yfir 5-10°) eða
misvísun á framhluta fótarins er frekari athugunar þörf.

Ráðfærðu þig við heimilislækninn eða ungbarnaeftirlitið ef þú hefur af þessu áhyggjur.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur