Prepulsid – aukaverkanir

Spurning:

Sæll.

Gætir þú gefið mér tæmandi lista af aukaverkunum magalyfsins Prepulsid?

Í ágústhefti bandaríska tískublaðsins ELLE er grein um magalyfið Propulsid sem er framleitt af sama framleiðanda og Prepulsid (Jansen) og virðist virka eins, þ.e. breytir vöðvalagi meltingarvegar. Í greininni segir að lyfið hafi verið tekið af markaði í USA eftir ákveðinn fjölda dauðsfalla í kjölfar inntöku þess og vegna hjartsláttatruflana sem lyfið gæti haft í för með sér. Hafið þið heyrt um þessar aukaverkanir?

Tveggja ára dóttir mín hefur tekið þetta lyf í rúmt ár en ég vildi síður gefa henni það sé lækningin verra en meinið.

Takk,
móðir

Svar:

Sæl móðir.

Prepulsid (Propulsid í BNA) hefur eftirfarandi aukaverkanir skv. sérlyfjaskránni:

Algengustu aukaverkanir eru niðurgangur (9%) og kviðverkir (3%), en þessi óþægindi eru yfirleitt tímabundin.

Algengar (> 1%):
Niðurgangur, kviðverkir, vindgangur og uppþemba.

Sjaldgæfar (0,1 – 1%):
Höfuðverkur, svimi og ógleði.

Mjög sjaldgæfar (<0,1%):
Ofnæmi þ.á m. útbrot, kláði og ofsakláði, berkjukrampi, krampaflog, einkenni frá extrapýramídalkerfi. Truflanir á lifrarstarfssemi, með eða án gallstíflu. Aukin tíðni þvagláta, háð skammtastærð. Of mikið prólaktín í blóði sem getur valdið gynaecomastiu, galactorrheu, en bein tengsl við notkun lyfsins hafa ekki að fullu verið sönnuð. Einstaka tilvik hjartsláttatruflana, þ.á m. sleglahraðsláttur, sleglatitringur, torsades de pointes og lenging QT-bils hafa verið skráð. Flestir þessara sjúklinga höfðu fengið mörg önnur lyf þar með talin CYP3A4 hamlandi lyf og/eða höfðu hjartasjúkdóma eða áhættuþætti fyrir hjartsláttartruflanir (sjá „Milliverkanir“ og „Varúð“ hér að neðan). Ef miklir kviðverkir verða eftir töku 20 mg taflna er mælt með, að skammtur sé helmingaður við hverja inntöku. Ef niðurgangs verður vart hjá smábörnum, skal minnka skammta.

Varnaðarorð og varúðarreglur: Varúðar skal gæta við gjöf lyfsins hjá þeim sjúklingum, þar sem auknar maga- og þarmahreyfingar gætu haft hættu í för með sér. Við lifrar- og nýrnabilun, er mælt með að skammtar séu minnkaðir um helming. Hjá öldruðum er stöðug blóðþéttni venjulega hærri vegna lengri helmingunartíma. Meðferðarskammtar eru þó svipaðir og notaðir eru hjá yngri sjúklingum.
Sjúklinga með eftirgreinda áhættuþætti skal meta áður en cisapríð er gefið og meta skal kosti þess að gefa lyfið á móti hugsanlegri hættu: saga um alvarlega hjartasjúkdóma (þ.á m. alvarlegar sleglahjartsláttartruflanir, II. og III. gráðu leiðslurof, hjartabilun, hjartasjúkdómar með blóðþurrð), nýrnabilun (sérstaklega við langvinna blóðskilun), verulegur langvinnur teppusjúkdómur í lungum og öndunarbilun, áhættuþættir fyrir elektrólýtatruflanir eins og koma fram hjá sjúklingum sem taka kalíumsparandi þvagræsilyf eða í tengslum við gjöf insúlíns við bráðaaðstæður. Hjá þessum sjúklingum ætti aðeins að nota císapríð undir eftirliti læknis.

Milliverkanir við lyf eða annað: Vegna áhrifa lyfsins á magatæmingu getur það haft áhrif á frásog annarra lyfja, m.a. segavarnalyfja. Andkólínvirk lyf upphefja að verulegu leyti örvandi áhrif cisapríðs á hreyfingar í meltingarfærum. Rétt er að gera storkupróf hjá sjúklingum, sem eru á segavarnarmeðferð á fyrstu dögum eftir að notkun lyfsins er hafin og henni hætt og ef nauðsyn krefur leiðrétta skammta af segavarnalyfinu. Cisapríð getur flýtt áhrifum benzódíazepína og alkóhóls. Aðalumbrotsleið cisapríðs er fyrir tilstuðlan CYP3A4. Samtímis inntaka eða notkun stungulyfja sem hamla þessi ensím verulega getur leitt til aukinnar plasmaþéttni cisapríðs og getur aukið hættu á lengingu QT-bils. Þess vegna er notkun slíkra lyfja frábending. Dæmi um þetta eru m.a. eftirfarandi:
Azól sveppalyf svo sem ketókónazól, ítrakónazól, míkónazól og flúkónazól.
Makrólíð sýklalyf eins og erýtrómýcín, klaritrómýcín eða tróleandómýcín.
HIV próteasa hemlar – in vitro rannsóknir benda til þess að rítonavír og indínavír séu öflugir CYP3A4 hemlar en að sakvínavír sé einungis vægur hemill.
Nefazódón.
Lyf sem vitað er að lengja QT-bil eru einnig frábending. Þar með talin er ákveðin lyf við hjartsláttartruflunum, til dæmis af flokki IA (svo sem kínídín, dísópýramíð og prókaínamíð) og flokki III (svo sem amiódarón og sótalól); þríhringlaga geðdeyfðarlyf (svo sem amitriptylín); ákveðin fjórhringlaga geðdeyfðarlyf (svo sem maprótilín); ákveðin róandi lyf (svo sem fenótíazín, pímózíð og sertindól); ákveðin andhistamín (svo sem astemízól og terfenadín); bepridíl, halófantrín og sparfloxasín.
Samhliða gjöf greipaldinsafa með císapríði eykur aðgengi císapríðs og á því að forðast samhliða notkun þeirra.
Címetidín veldur örlítilli hækkun á plasmaþéttni cisapriðs, ekki er talið að það hafi áhrif á klíníska verkun.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur