Próteindrykkurinn ISO-SOY, soy protein/isoflavone?

Spurning:

Sæll.

Mig langar að vita hvaða álit þú hefur á próteindrykknum ISO-SOY, soy protein/isoflavone. Mér var bent á að hann væri góður fyrir mig þar sem ég á við mikil ristilvandamál að stríða (ristilkrampa). Ég borða ekki mikið kjöt og fæ því ekki mikið prótein þar. Ég hef reynt ýmislegt og farið til lækna vegna ristilkrampans en ekkert hefur gengið. Mig langar til að prófa þetta en vil fá þitt álit á slíkum drykk. Er í lagi að drekka hann á meðgöngu?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þetta er ágætis hollustudrykkur. En samt sem áður get ég ekki séð að hann ætti að gagnast vel í baráttunni gegn ristilkrampa. En það sakar ekki að prófa og ef þér finnst hann gagnast skaltu halda áfram neyslunni. Ástæða þess að ég tel ólíkleg að hann gagnist er að hér er um próteindrykk að ræða en samkvæmt mínum kokkabókum virka prótein frekar stemmandi fyrir meltingarkerfið. Áður en ég læt fylgja almennar upplýsingar um ristilkrampa og mögulegar sjálfshjálparleiðir vil ég benda á drykk sem ég veit að var, og eflaust er, mjög vinsæll á Heilsustofnunni í Hveragerði, þar sem ég vann á sínum tíma. Hér er ég að tala um gulrótarsafa – kolvetnaríkur drykkur hlaðinn trefjaefnum en trefjar (svo framarlega sem ofneysla á sér ekki stað) aðstoðar til við meltingu. Ég minnist á þetta því þeir voru ófáir vistmennirnir sem töluðu um það við mig hve vel gulrótarsafinn virkaði á meltingarstarfsemina.

Varðandi það hvort það sé í lagi að neyta drykksins á meðgöngu þá tel ég ekkert mæla gegn því.
Upplýsingar varðandi ristilkrampa: Ef allt er með felldu þoka reglulegar, samhæfðar samdráttarbylgjur garnainnihaldinu áleiðis. En við ristilkrampa verða bylgjurnar óreglulegar og ósamhæfðar og rennsli garnainnihaldsins truflast. Að ég best veit er orsök sjúkdómsins ekki fyllilega þekkt en líklegt má telja að orsakirnar geti verið margar. Þannig eru sumir sem telja að sálrænar ástæður geti verið undirrót sjúkdómsins vegna þess að einkennin vaxa samfara streitu. Helstu einkenni sjúkdómsins eru annað hvort niðurgangur eða hægðatregða. Þessu fylgja krampakenndir verkir, oftast nær neðarlega í kviðarholi.

Áður en ég bendi á leiðir sem gætu gagnast vil ég taka fram að mikilvægt er að leita sér upplýsinga hjá viðeigandi sérfræðingi, eins og sérfræðingi í meltingarsjúkdómum.

Sjálfshjálparleiðir sem hægt er að grípa til: Ef sýnt er að streita skiptir máli er augljóslega mikilvægt að temja sér streituminni lífsstíl. Hægara sagt en gert segir nú einhver og það réttilega! En það sakar ekki að reyna. Reglubundin „hófleg” líkamsþjálfun og ástundun jóga getur komið að gagni til að draga úr streitu. Hvað varðar mataræði er mikilvægt að borða reglulega yfir daginn – frekar lítið í einu og oftar en mikið í einu og sjaldan. Óhófleg fituneysla, eins og á brösuðum mat, gerir einkennin oft verri og einnig virðast sumir vera viðkvæmir gagnvart mikilli neyslu á hráu grænmeti. Aftur á móti hefur trefjaefnaríkt fæði reynst hjálplegt í meðferð margra sem þjást af ristilkrampa. En dæmi um trefjaefnaríkt fæði er m.a. grófkornmeti margs konar og ávextir. Sveskjurnar eru alltaf vinsælar! Einnig má geta þess að þeir sem drekka áfengi og reykja geta oft hjálpað sér með því að draga úr áfengisdrykkju og hætta reykingum.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur