Próteinríkur matur

Spurning:

Varðandi megrunarkúra: Hvaða áhrif hefur það á líkamann að lifa aðallega á próteinríkum mat og sleppa öllu helstu kolvetnum samhliða líkamsrækt?

Svar:

Kolvetni er aðalorkugjafinn okkar og er ætlað að halda okkur gangandi. Fita er einnig notuð sem orkugjafi í bland við kolvetnin. Það ætti aldrei að þurfa að nota prótein sem orkugjafa. Ef kolvetnin eru tekin út og prótein verða uppistaðan í fæðinu þá þarf líkaminn að fara að nota amínósýrur (próteinin eru brotin niður í amínósýrur í meltingarvegi) til orkumyndunar. Þetta ferli er mjög óhagstætt fyrir líkamann því það er erfiðara fyrir líkamann að fara þessa leið til orkumyndunar. Auk þess innihalda amínósýrur köfnunarefni sem líkaminn þarf þá að losa sig við sem veldur auknu álagi á nýrun. Til að skila köfnunarefninu út (með þvagi) þarf einnig mikið magn af vatni, þannig að við miklar æfingar gæti líkaminn ofþornað.

Að nota þessa leið sem megrunarkúr getur ekki talist hollt til lengri tíma. Rannsóknir hafa þó sýnt að mikil próteinneysla geti hjálpað fólki að grennast. Ástæðan er sú að það kostar mikla orku að mynda orku úr próteinum, auk þess sem mettunargeta próteina er mikil. En það má samt sem áður ekki skera kolvetnin niður þar sem þeim fylgja lífsnauðsynleg vítamín og steinefni auk trefja, sem við megum ekki missa úr fæðinu.

Besta leiðin til megrunar er að auka neyslu á ávöxtum og grænmeti (fáar hitaeiningar og fullt af bætiefnum!) og skera niður fituneyslu. Líkamsrækt
samhliða þessu ætti að skila góðum árangri. En munið að þetta verður að stunda alla ævi – megrunarkúrar skila sjaldan árangri – breyttur lífstíll er það sem dugar.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur