Spurning:
Halló.
Ég á tæplega 10 mán. dóttur sem að á erfitt með að sofa á nóttunni og sefur mjög stutta lúra yfir daginn, sólarhringurinn hjá okkur gengur u.þ.b. á þessa leið:
Hún vaknar á bilinu 05.30-.7.00 og kemur þá uppí til okkar þar sem hún sofnar aftur og sefur þá yfirleitt til kl. 07.30 eða 08.00. Við förum svo framúr rétt fyrir 08.30. Kl. ca. 10.00 sofnar hún aftur í miðju hjónarúminu (ég þarf yfirleitt alltaf að liggja hjá henni þar til hún sofnar) og sefur þá í ca. 30-45 mín., aldrei lengur.
Eftir hádegið, ca. 13.30 fer hún annað hvort út í vagn eða sefur í hjónarúminu og vaknar alltaf eftir 30-45 mín. Þá fer ég annað hvort og rugga vagninum eða leggst hjá henni og sofnar hún þá aftur, vaknar þá oft aftur eftir ca. 10 mín. en sofnar svo aftur og sefur þá í 30-45 mín.
Seinniparturinn er oft erfiður, hún hefur sofið 30-45 mín. lúr á milli kl. 17.00 og 18.00, en eftir að hún fór að vera ergileg að kvöldinu hef ég reynt að taka þann lúr af henni eða stundum leyft henni að sofna í 5-10 mín.
Á kvöldin höfum við alltaf ákveðna reglu á milli kl. 20.00 og 21.00 (fer eftir hvernig hún er), þá fær hún pela, við tannburstum, kyssum góða nótt, förum með faðirvorið og svo á að sofna, en þá upphefst oft mikill grátur og við foreldrarnir förum margar ferðir til að hlúa að o.þ.h. Næturnar eru líka oft óværar þó svo að inn á milli komi nætur sem að hún sefur 6-7 klst. í einum rykk en það er afskaplega sjaldgæft. Okkur langar mikið til að reyna að breyta þessu svefnmynstri því að við finnum mikinn mun á henni ef að hún fær lengri svefn bæði á nóttu sem degi, þá sjaldan að það gerist nú.
Með fyrirfram þökk.
Svar:
Sæl.
Það er greinilegt að eitthvað er ekki sem skyldi með svefninn hjá barninu. Þið eruð væntanlega búin að fara með stúlkuna til læknis til að útiloka að eitthvað geti verið að sem hindrar svefn. Eyrnabólga, þvagfærasýking, fæðuóþol/-ofnæmi eða njálgur getur t.a.m. birst sem óværð. Eftir að búið er að útiloka veikindi er æskilegt að taka á svefninum og það er best gert með því að halda ró sinni og halda sinn eigin hvíldartíma. Það er mjög einstaklingsbundið hversu mikið fólk þarf að sofa og börn eru þar engin undantekning. Þú segir ekkert til um það hvort barnið er á brjósti. Sé svo er gott að aftengja brjóstagjöfina og svefninn með því að svæfa barnið ekki við brjóstið. Ef þú ert ekki tilbúin til að svæfa alltaf, alla dúrana, þá er nauðsynlegt að vera fastur fyrir og láta barnið halda reglu á svefntíma hvort heldur að degi eða nóttu. Við það hefur atferlismeðferð gefið hvað besta raun og hana hef ég reifað í fyrirspurnum á Doktor.is. Hún byggir á reglusemi svipað og þið hafið verið að gera á kvöldin. Þið þurfið e.t.v. einnig að viðhafa svipaðar reglur með aðra svefntíma þannig að barnið læri ákveðið áreiti í tengslum við svefninn og taki það í sátt.
Ef ekkert gengur og þið ráðið illa við svefntímann getið þið leitað aðstoðar á barnadeild Landspítala í Fossvogi þar sem er starfandi sérstakt svefnteymi sem sérhæfir sig í svefnvandamálum barna.
Gangi ykkur vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir