Rauð kúla á augnbarminum?

Spurning:
Ég er með rauða kúlu eða hnút í augnbarminum þar sem augað byrjar. Augnlæknirinn sagði að þetta væru æðar í hnút og væri bara góðkynja æxli sem hægt væri að skera burt ef ég vildi. Hvað er þetta, hvers vegna kemur þetta og hvað gerist ef ég læt ekki taka þetta? Augnlæknirinn útskýrði þetta ekkert nánar og fannst mér eins og þetta væri ósköp ómerkilegt (sem ég náttúrulega vona).

Svar:
Komdu nú sæl. Þetta fer nú svolítið eftir staðsetningu og stærð en yfirleitt er hægt að fjarlægja slíkt nokkuð auðveldlega með lítilli skurðaðgerð. Þetta hljómar eins og æðaæxli, sem er algjörlega góðkynja fyrirbæri. Þetta getur hjaðnað algjörlega án nokkurra eftirkasta og yfirleitt verður þetta ekki mjög stórt. Láttu augnlækni fylgjast með þessu og nema það á brott ef þetta truflar þig.

Bestu kveðjur og gangi þér vel, Jóhannes Kári