Spurning:
Ég hef miklar áhyggjur af því að ég er alltaf að reita af mér hárið. Frá því ég var unglingur hefur það verið kækur hjá mér að reita af mér hárið, og þá ekki bara hárið á höfðinu heldur einnig augnhár. Á tímabili var ég ekki með nein augnhár, þar sem ég hafði rifið þau af, en sem betur fer uxu þau aftur. Ég virðist ekki geta hætt að reita hárið af mér, tek alltaf svona eitt og eitt í einu, og áður en ég veit af er ég kannski búin að reita tugi hára af mér. Ef ég er stressuð og undir miklu álagi þá reiti ég sérstaklega mikið. Ertu með einhver ráð fyrir mig til að hætta þessu? Er til heiti yfir þennan leiðindakæk?
Svar:
Heitið yfir þennan leiðindakæk er trichotillomania og telst til hvataröskunar, ef hann er á háu stigi. Algengast er að fólk reiti hár af höfði, augabrúnum og augnhár. Það þekkist þó líka að hár sé reitt alls staðar þar sem það vex. Fólk á það til að gera þetta öðru hverju yfir daginn en líka í löngum törnum sem geta staðið tímunum saman. Sumir gera þetta þegar þeir slaka á og eru annars hugar, svo sem þegar þeir lesa í bók eða horfa á sjónvarp en þetta getur líka skotið upp kollinum þegar fólk er undir álagi, eins og þú lýsir. Þessi kvilli getur verið erfiður viðureignar og læknast seint af sjálfu sér en það má sigrast á honum með réttri meðferð. Meðferðin þarf að vera sérsniðin að hverjum og einum. Þá er mikilvægt að hafa sérfræðing með sér sem leiðbeinir þér og hvetur til dáða.
Gangi þér vel
Reynir Harðarson
sálfræðingur S: 562-8565