Rh-negatív móðir og rh-positív barn

Hæhæ

Mig langar að forvitnast aðeins hjá ykkur.
Ég er að skríða í þrítugsaldurinn og er ólétt af mínu fyrsta barni. Gengin 24+6.
Ég bý í svíþjóð og hitti ljósuna mína í seinustu viku og þar tilkynnti hún mér það að ég væri rh-negatív og barnið hafði fengið blóð föður síns s.s. Rh-positív.
Stundum er pínu erfitt að reyna að skilja öll læknamálin hérna úti enda er ég bara búin að búa hér í fjögur ár.
Svo ég undra ef blóðblöndun á sér stað á meðgöngunni sjálfri er það þá hættulegt fyrir mig? (Ég veit að það er hættulegt barninu) og fylgja því einhver einkenni sem ég get þá fylgst með á meðgöngunni?
Þetta er að valda mér örlitlum hugaróróa.

Kveðja

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina,

Rh-negatíft fólk getur myndað mótefni ef Rh pósitíf blóðkorn komast í blóðrás þeirra. Þetta getur gerst við blóðblöndun, en hjá barnshafandi konum er líklegast að blóðblöndun verði í fæðingunni. Við fæðinguna geta æðar og vefir í fylgju rofnað og blóðkorn fósturs geta þá komist í blóðrás móður. Mótefnavakar á blóðkornunum örva mótefnaframleiðslu móðurinnar. Líkami móðurinnar myndar þá mótefni gegn rauðum blóðkornum fóstursins. Ef ekkert er brugðist við eftir fyrstu meðgöngu, geta vandamál skapast í næstu meðgöngum, þar sem mótefnin sem hafa myndast komast yfir fylgjuna í blóðrás fóstursins og ef það fóstur er Rhesus pósitíft bindast þessi mótefni utan á rauðu blóðkornin, stytta líftíma þeirra verulega og getur það valdið alvarlegu blóðleysi hjá fóstrinu eða gulu í nýfædda barninu.

Til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist eru rhesus neikvæðum mæðrum sem eignast rhesus pósitív börn gefin mótefni í sprautuformi.  Þá er tekin blóðprufa úr naflastrengsblóði allra barna rhesus neikvæðra mæðra við fæðingu. Ef barn þeirra er rhesus pósítívt fær móðirin Rh immunoglóbúlín innan þriggja sólarhringa eftir fæðingu. Í mæðravernd eru teknar blóðprufur í fyrstu komu hjá öllum konum þar sem skimað er eftir mótefnum. Hjá þeim konum sem eru rhesus neikvæðar er enn frekar fylgst með mótefnamyndun oftar á meðgöngutímanum.

Gangi þér vel

Sigríður Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðingur