Spurning:
Blessuð Dagný!
Svolítið skrítin spurning. Málið er að ég á eitt barn fyrir, annað á leiðinni og ég er virkilega að velta fyrir mér einu sem að margar konur velta kannski ekki fyrir sér. Það er að þegar ég fæddi var ég ekki klippt, það er að segja spöngin. Ég rifnaði aðeins, ekki mikið. En ég er mjög meðvituð um útlitið þarna niðri, það er ekki eins og það var áður sem að er eðlilegt og flestar konur sætta sig kannski við nema ég. Er hægt að fá þetta lagfært að einhverju leyti og hver myndi sjá um svoleiðis? Væri það þá lýtalæknir eða kvensjúkdómalæknir? Er það skrítið að spyrja um þetta? Mér finnst það nefnilega ekki.
Svar:
Komdu sæl
Það er ekkert undarlegt að spekulera í þessu – eðlilegt að huga að útliti og líðan hvar sem er á líkamanum. Ástæða þess að ekki er klippt er sú að oftast eru rifur mun minni skurðir og gróa betur en ef klippt er. En ef þú vilt láta laga þetta væri réttast að bíða þar til þú ert búin að fæða þetta barn og jafna þig vel, t.d. 3-6 mánuði, þá getur kvensjúkdómalæknir lagað þetta annaðhvort á stofu eða sjúkrahúsi.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir