Spurning:
Sæl,
Mig vantar að fá að vita hvort það skaði fóstrið ekkert ef ég er búin að vera að fá ristilkrampa?? Ég er komin 6 mánuði á leið og þetta byrjaði núna fyrir 2 vikum síðan að þegar ég fæ mér brauð eða eitthvað úr bakaríi þá fæ ég svo mikla krampa í magann að ég get ekki hreyft mig.
Er ekkert hægt að gera við þessu?? Og er þetta ekki skaðlegt fyrir fóstrið??
Með fyrirfram þökk.
Svar:
Það er heldur hvimleitt að fá ristilkrampa á meðgöngu – en alls ekki óalgengt. Málið er að á meðgöngunni slaknar á sléttum vöðvum líkamans og þar með þeim vöðvum sem sjá um að ýta fæðunni í gegn um ristilinn. Fyrir vikið er fæðan lengur á leiðinni í gegnum meltingarveginn og það veldur oft hægðatregðu og/eða mikilli loftmyndun í þörmum. Verkirnir koma svo þegar myndast þrýstingur vegna lofts eða fyrirferðamikilla hægða sem ýtast niður ristilinn. Þú ert greinilega búin að finna tengsl milli bakarísbrauðs og óþægindanna. Það er möguleiki að þú hafir óþol fyrir einhverju sem er í bakaríisbrauði – sumir þola t.a.m. illa ger og hvítt hveiti – þú gætir því prófað að borða frekar gerlaust brauð. Reyndu einnig að sneiða hjá öllu sem eykur loftmyndun eins og káli, rófum, rúgbrauði, baunum, gosdrykkjum og sykri. Ræddu líka við ljósmóðurina þína – hún á e.t.v. einhver ráð. Það er einnig óvitlaust að hitta lækni því e.t.v. er þetta eitthvað annað en ristilkrampi. Þú þarft hins vegar engar áhyggjur að hafa af fóstrinu – ristilkrampi hefur engin áhrif á líðan þess – það er vel varið inni í leginu. Vona svo að þetta lagist sem fyrst hjá þér.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir