Rokkandi hiti

Er eðlilegt fyrir 3 ára dreng að vera að rokka í hita frá 2 – 5 kommur?

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,

Já, það er eðlilegt að líkamshiti sveiflist yfir daginn.

Almennt er miðað við að eðlilegur líkamshiti sé á bilinu 36,4°C – 37,5°C. Samkvæmt upplýsingum Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins er almennt ekki talað um að börn séu með hita fyrr en hiti er kominn yfir 38°C (37,8°C ef mælt með munnmæli og 37,2°C ef hiti er mældur í holhönd). Hér má lesa leiðbeiningar um viðbrögð vegna hita hjá börnum. https://www.heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-fravik-einkenni/hiti-hja-bornum/

Líkamshiti getur verið aðeins breytilegur á milli manna og getur einnig verið munur á milli aldurshópa. Líkamshiti mælist yfirleitt hæstur seinni part dags eða snemma kvölds, en er lægstur á milli miðnættis og snemma morguns.

Mældur hiti getur einnig verið mismunandi eftir því með hvaða hætti mæling á sér stað og er misnákvæmur eftir mælingarstað og tegund mælis. Þeir hitamælar sem mæla kjarnahita eru nákvæmastir, almennt talið vera endaþarmsmælir en einnig eyrnamælir ef hann er rétt notaður. Sé hiti mældur í holhönd mælist hann umtalsvert lægri heldur en kjarnahiti.

Gott er að hafa í huga að ennis- og eyrnamælar gefa yfirleitt örlítið mismunandi niðurstöðu ef mæling er endurtekin eftir því hvernig/hvar geislinn hittir á yfiborð húðar/hljóðhimnu.

Gangi ykkur veL

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur