Roði í augum?

Spurning:
Ég hef verið með roða í augum og bólgur undir augunum í um það bil tvær til þrjár vikur núna. Ég fór til læknis en hann hélt að ég væri með hvarmabólgu og lét mig fá Fucithalmic dropa og Mildison krem til að bera undir augun þar sem ég er með sviða og roða undir augunum og bólgin, lít úr eins og gömul kona um augun en samt ekki með hreistruga eða mjög þurra húð á þessu svæði. Augun sjálf eru frekar rauð og ég er með sviða og stundum kláða. Tilfinningin er svipuð og þegar ég er með frjókornaofnæmi á sumrin og ég finn fyrir smá þrýstingi undir augunum og niður á kinnbeinin.

Ég notaði síðan þessi krem í um það bil viku en ekkert gerðist og núna er ég byrjuð að taka inn Kestin síðustu 6 daga og er ekki að nota dagkremið sem ég nota venjulega heldur Hydrofíl rakakrem til þess að reyna að útiloka að þetta sé ofnæmi fyrir dagkreminu, en ekkert gerist. Ég er alveg að verða vitlaus á þessu og þetta er virkilega að pirra mig. Ég hef verið að velta fyrir mér hvort að það geti verið að það séu frjó í loftinu núna, bara hugmynd þó að það sé hæpið á þessum árstíma en þar sem veðráttan hefur verið eins og hún er, hefur þetta hvarlað að mér. Annað, ég er með hamstur á heimilinu en hann er samt búinn að vera í þónokkurn tíma áður en þetta byrjaði.

Mér þætti vænt um að fá eitthvert sjónarmið á þetta sem mér er að yfirsjást.

Takk fyrir kærlega.

Svar:
Þarna er ég viss um að um nokkra orsakaþætti sé að ræða í einu. Þrír þættir koma strax upp í hugann: Ofnæmi (líkt og þú lýsir sjálf), hvarmabólga (líkt og læknirinn lýsir sjálfur) og síðan augnþurrkur. Eins gæti sýking hugsanlega verið á ferðinni. Það er oft erfitt að sjá hvað er að valda hverju og erfitt að ruglast ekki í ríminu yfir öllu saman. Mér finnst heldur ólíklegt að frjókornin séu farin að svífa um héruð þrátt fyrir mildan vetur. Hamsturinn þinn vekur vissar grunsemdir – en ég myndi nú samt ekki skella skuldinni á litla dýrið enn. Nóg er nú á hamstra lagt nú til dags. Ef við reynum að einfalda málið þá má segja að lykileinkenni hvarmabólgu sé sviði en lykileinkenni augnofnæmis sé kláði. Lykileinkenni augnþurrks er síðan eins og eitthvað sé í augunum og táraflóð (já flóð), einkum í roki. Roði er frekar ósértækt einkenni sem getur sést í öllum þremur sjúkdómunum. Á eitthvað af þessum fyrrnefndu einkennum við þig frekar en önnur?

Ef augnlæknir hefur ekki kíkt á þig þá myndi ég eindregið ráðleggja þér að leita þangað til greiningar, ráðlegginga og meðferðar. Fólki finnst þetta oft ekki vera nægileg ástæða til að leita augnlæknis, en staðreyndin er sú að þetta eru oft einna flóknustu augnsjúkdómarnir þegar allt kemur til alls og er því augnlæknir best fallinn til að greina þessa sjúkdóma.

Gangi þér allt í haginn,
Jóhannes Kári