Samfarir án getnaðarvarna

Spurning:

Sæll.

Mig vantar svör sem allra allra fyrst! Ég er alveg að deyja úr áhyggjum, þannig er nefnilega mál með vexti að ég og kærastinn minn erum búin að „gera það” tvisvar (á föstudaginn og á mánudaginn) án þessað nota smokk og ég er ekki á pillunni og hann fékk það í bæði skiptin. Mig langar rosalega að vita svör við nokkrum spurningum.

Hvað eru eiginlega miklar líkur á því að ég sé ólétt? Verða konur alltaf óléttar við það að maðurinn fær það án þess að einhverjar getnaðarvarnir séu til taks? Hvað líður oftast langt frá getnaði og þangað til að konur verða óléttar? Ég vona að þú getir svarað þessum spurningum sem allra allra fyrst, því ég er rosalega stressuð.

Takk kærlega fyrir.

Svar:

Sæl.

Konur verða ekki alltaf óléttar þó engar getnaðarvarnir séu notaðar. Sum pör nota aldrei getnaðarvarnir, þau reyna að nota svokölluðu öruggu daga í tíðarhringnum. Þetta er raunar eina viðurkennda aðferðin í kaþólsku. Rannsóknir sýna þó að 90% kvennanna verða barnshafandi innan árs.

Það sem ég er því að segja er þetta; það skiptir mestu máli hvar þú varst í tíðarhringnum þegar þú hafðir samfarir. Ég er líka að segja að það er erfitt að segja að það séu einhverjir dagar alveg öruggir.

Svo spyrðu um hvað líði langur tími frá getnaði til þungunar. Þarna ertu væntanlega að meina frá samförum til þungunnar? Það er kannski sólarhringur.

Það sem þú þarft að gera núna er að vera alveg róleg.
Þegar þú átt að byrja næst á túr, eða á næstu vikum, skaltu taka þungunarpróf – þetta skaltu gera þó að þú hafir einhverjar blæðingar. Svo skaltu hitta lækninn þinn. Hann lætur þig hafa pilluna eða góða getnaðarvörn ef þú ert ekki ólétt.
Sértu hins vegar ólétt (jákvætt þungunarpróf) skaltu hringja í félagsráðgjafana á Kvennadeild Landsspítalans og ræða við þær. 560-1166 http://www.rsp.is/kvennadeild/thjonusta/felags.htm. Sértu ekki á höfuðborgarsvæðinu skaltu tala við lækninn þinn.

Þú áttir auðvitað að nota smokk eða aðra getnaðarvörn. Þar sem þú gerðir það ekki hefðir þú átt að stíga næsta skref í öryggisnetinu og taka Neyðargetnaðarvörnina daginn eftir eða innan 72klst. Neyðargetnaðarvörnin fæst í apótekum og er ekki lyfseðilskyld.

F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi