Samverkun geðdeyfðar- og verkjalyfja

Spurning:

Ég er verkjasjúklingur og nota lyfið Nobligan við verkjum, einnig hef ég þurft að nota lyfið Zoloft og fleiri slík lyf, sem auka magn serótóníns í taugamótum heila, þessi lyf hef ég ekki þolað. Getur verið að verkun Nobligans á serótónín-framleiðslu valdi því að ég þoli ekki hin lyfin?

Svar:

Það skal tekið fram að aukaverkanir og milliverkanir lyfja eru mjög einstaklingsbundnar. Einn þolir það sem annar þolir ekki. Nobligan hefur margvíslegan verkunarmáta. Fyrst og fremst hefur það sterk verkjastillandi áhrif, en það verkar á svipaðan hátt og morfín. Auk þess hemur það endurupptöku noradrenalíns og serótóníns í taugaenda. Nobligan eykur líka losun serótóníns. Einnig hefur það verkun á. öndun, blóðrásarkerfi og fleira en áhrifin eru svo lítil eftir venjulega skammta að það skiptir ekki máli hér. Sé Nobligan og lyf af flokki SSRI lyfja (t.d. Zoloft) gefin samtímis getur það lækkað þann þröskuld sem viðkomandi hefur fyrir flog, þ.e.a.s. auknar líkur eru á flogaköstum. Zoloft og önnur SSRI lyf hindra upptöku serótóníns í taugaenda. Nobligan og SSRI hafa því bæði þá verkun að auka magn serótóníns í taugamótum. Þegar slíkar aðstæður skapast (þ.e. aukning serótóníns í taugamótum er með fleiri en einum hætti) getur komið fram svokallað „serótónín-syndróm”. Venjulega verður þetta syndróm á milli SSRI lyfja og svokallaðra MAOI lyfja. Það er þekkt fyrir önnur lyf en það er mjög sjaldgæft í tilviki Nobligans og Zolofts. Einkennin geta verið margskonar en eru oftast væg en geta þó verið alvarleg. Það getur því vel verið að þessi lyf fari illa saman, en að sjálfsögðu fer það líka eftir því hvaða einkenni/óþægindi koma fram hvort hægt sé að skella skuldinni á lyfin.

Með kveðju,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur