Sár í munnholi

Af hverju myndast sár í munninum?

Oft er sagt að munnnholið sé spegill líkamans. Það er ekki allt með felldu þegar sár myndast í munnholinu. Ef blæðir úr tannholdi er oftast nær um tannholdsbólgur að ræða. Stundum getur of kraftmikil tannburstun valdið sáramyndun á tannholdi, sér í lagi ef tannholdsbólgur eru til staðar. Alltaf ber að hafa samband við tannlækni ef blæðir úr tannholdi, sé skýringin ekki ljós. Munnangur geta myndast í munninum. Þau eru sérstaklega viðkvæm ef þau eru staðsett þar sem mikil hreyfing er á vefjum munnsins. Orsök munnangurs er óþekkt. Þau gróa yfirleitt á 7-10 dögum. Tannkrem sem innihalda ensím, s.s. Zendium geta hjálpað til. Einnig er hægt að kaupa glukokortikoid krem sem stundum hjálpa. Önnur og alvarlegri sár geta einnig myndast í munnholinu. Stundum eru þau merki um aðra sjúkdóma. Þú skalt því hafa samband við tannlækni þinn, ef þú hefur verið með sama sárið í 2-3 vikur, án þess að þau grói.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannlæknafélags Íslands af vef þeirra tannsi.is