Sár stingur í gagnaugað.

Ég fæ sting í gagnaugað svo sáran að ég rek upp óp, hef fengið þennan sting í mörg ár en aldrei eins oft og á síðasta ári. þetta varir í sekúntubrot, stundum núna seiðingur á eftir , nú er þetta stundum oft á dag og stundum líða 1-2 vikur á milli .Áður kom þetta fyrir einu sinni til þrisvar á ári. Fyrir ári síðan byrjaði þetta að koma svona ört , gerir engin boð á undan sér, hvað getur svona verið.

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina

Sársauki við gagnaugað (sérstaklega öðru megin en getur verið báðu megin) er eitt aðal einkenni mígrenis. Mígreni er algengur taugatengdur sjúkdómur og geta einkenni verið mis mikil milli einstaklinga. Einkenni geta verið: ljós og hljóðfælni, sjón getur brenglast meðan á mígreniskasti stendur, svimi, þreyta, þróttleysi, ógleði og uppköst, einbeitingaskortur o.fl.

Sýking í ennis og kinnholum getur einnig valdið sárum höfuðverkjum og aukins þrýstings í ennis og kinnholum.

Risafrumuæðabólga (Temporal arteritis) er sjúkdómur sem veldur bólgum í stórum og meðalstórum slagæðum. Einkenni þess geta verið höfuðverkur eða eymsli í gagnaugum og enni, eymsli i hársverði og almennur slappleiki. Þessi tegund gigtar er algengari hjá eldra fólki (oft 70 ára og eldri). 

Það getur verið gagnlegt að skoða undir hvaða kringumstæðum þessi verkur sprettur upp, hvort þú sért að gera eitthvað, borða eitthvað eða í einhverjum ákveðnum kringumstæðum, sem gætu komið þessum verk af stað. 

Annars er svo margt sem getur komið til greina þegar snýst að höfuðverkjum og spilar inn í þetta heilsufarssaga hvers og eins o.fl.,, þess vegna ráðlegg ég þér að heyra í heimilislækninum þínum sem síðan getur vísað þér áfram ef þess er þörf. Þegar kemur að höfuðverkjum sem eru stingandi eða verulega sárir er alltaf gagnlegt að láta athuga það nánar til að koma í veg fyrir hugsanlegar afleiðingar, hverjar sem þær kunna að vera.

Gangi þér vel

kveðja,

Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur