Sefur á daginn en vakir á nóttunni

Spurning:

Sæl Dagný. Fyrst og fremst vil ég þakka þér fyrir allan þann stuðning og þau svör við kjánalegustu spurningum sem vöknuðu á meðgöngu.

Nú er litla stelpan okkar komin í heiminn og fæðingin gekk þokkalega en nú kemur að spurningum sem ég verð hreinlega að fá svör við.

1. Stelpan okkar sefur mikið á daginn en vaknar samt reglulega til að fá sér að drekka en svo á kvöldin glaðvaknar hún og það virðist vera sama hvað konan gefur henni brjóstið og við gefum henni þurrmjólk alltaf vill hún sjúga og er óróleg vakir mikið og langt fram eftir hvað er til ráða???

2. Hvað á ég að gera ef ég er ekki ánægður með hjúkrunarfræðinginn sem kemur og skoðar hana?? Mér finnst hún vera með eilífar predikanir um hitt og þetta og það fer hryllilega í tauganar á öllum á heimilinu bæði mér, konunni og foreldrum konunnar??

3. Kannski það að barnið sé svona góður mannþekkjari en af hverju í ósköpunum grætur hún ekkert hjá móður sinni, ömmu eða systur konunar en svo þegar ég tek hana upp og ætla að tala við hana grenjar ógurlega hreinlega verður eldrauð í andliti og argar á mig.

Dagný með fyrirfram þökk með skjót svör þá vil ég þakka þér enn og aftur stuðninginn í gegnum meðgönguna þú ert svo sannarlega sú færasta á þínu sviði og hittum við ófáar ljósmæður á þessari meðgöngu. Þú átt allt þitt hrós skilið.

Svar:

Komið þið sæl og takk fyrir hlý orð í minn garð.

Mikið er ég fegin að stúlkan var spræk og fín. Það er nú svo að þótt krílin séu lítil þá hafa þau mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig þau vilja hafa hlutina alveg frá byrjun. Og okkur þeim fullorðnu er bara best að hlýða þeim – annars fer allt í háaloft. En öllu gamni slepptu þá vita þessar elskur oft betur en við hvað þeim er fyrir bestu. Og þá er komið að svari nr. 1.

1. Flest börn kjósa að sjúga mikið á kvöldin og geta hæglega vakað og sogið í 4 tíma í lotu á þeim tíma. Þetta kemur sjálfsagt til vegna þess að þegar barnið var í móðurkviði var kvöldið sá tími sem það átti hægast með að hreyfa sig sjálft um meðan móðirin hvíldi sig. Svo heldur barnið þessu vökumynstri eftir að það er fætt. Einnig spilar inn í kvöldvökurnar að móðurmjólkin er aðeins minni á kvöldin svo barnið þarf að drekka oftar og lengur til að fá nægju sína. En á móti kemur að mjólkin er mun feitari svo barnið er lengur mett eftir löngu kvöldgjöfina. Reynið að lofa henni þetta bara – oftast dregur úr þessu kvöldgöltri þeirra um 4 mánaða aldurinn. Best er ef þið eruð ekkert að gefa henni þurrmjólkina – þ.e.a.s. ef hún þyngist eðlilega – heldur lofið henni bara að sjúga sem mest hjá mömmu sinni. Það er tímafrekt en vel þess virði ef hægt er þar sem mjólkin eykst hjá mömmunni við allt þetta sog og barnið fær bestu mjólkina á kvöldin.

2. Alltaf þegar maður er óánægður með þjónustu ætti að tala við yfirmann viðkomandi aðila. Þið skuluð því tala við deildarstjórann yfir ungbarnaverndinni á heilsugæslustöðinni ykkar og ath. hvort ekki má skipta um hjúkrunarfræðing.

3. Ég held nú ekki að þeirri litlu sé illa við pabba sinn. Þú ert kannski bara óvanari börnum en konan, tengdó og systurnar og hún skynjar óöryggi þitt og bregst svona við því. Láttu gólið hennar ekki á þig fá – þetta er ekkert persónulegt. Eftir því sem þú ert meira með henni og heldur á henni oftar, þeim mun öruggari verður þú og hún venst þínum handtökum og verður öruggari hjá þér. Vertu mikið með henni þegar hún er södd þannig að hún hafi enga ástæðu til að orga. Þú getur t.d. látið hana ropa eða haldið á henni eftir gjafir. Margir pabbar búa sér til sérstakar stundir með unganum sínum, t.d. við að baða barnið eða taka það með sér í bað, horfa með því á sjónvarpið eða fara með það í gönguferðir framan á maganum. Þannig eflast tengslin milli ykkar og fyrr en varir verður hún hin mesta pabbastelpa.

Kær kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir