Seroxat á meðgöngu?

Spurning:
Kæri viðtakandi. Ég veit að þú hefur fengið margar fyrirspurnir um notkun Seroxats á meðgöngu. Það sem ég vildi vita er hvort ekki sé búið að rannsaka neitt börn kvenna sem hafa notað þetta lyf á meðgöngu? Ég er búin að nota Seroxat í meira og minna síðan 1999 en var hætt á því í einhverjar vikur þar sem ég var að reyna að verða ólétt. Eftir að ég varð ólétt fór ég hratt niður á við andlega og byrjaði að taka lyfin aftur (1/2 töflu, 10mg). Ég hef aðeins kynnt mér áhrif þess en eins og eðlilegt er þá er þetta lítið rannsakað. Það sem liggur kannski mest á mér er hvort að það komi verr út fyrir barnið að skyldi hafa byrjað á lyfinu í meðgöngunni? Ef lyfið væri að hafa mjög slæm áhrif væri það þá ekki komið í ljós og frekar reynt að koma veg fyrir að konur tækju þessi lyf á meðgöngu?
Takk fyrir áheyrnina. Ein ráðvillt

Svar:
Ástæðan fyrir því að varað er við notkun Seroxats á meðgöngu er að menn telja sig ekki hafa nægilega vissu fyrir áhrifum þess á fóstur. Í dýratilraunum hefur það sýnt sig að nýburum getur reitt verr af ef lyfið hefur verið notað. Þetta á við um önnur serótónín endurupptökuhemjandi lyf (SSRI). Af fenginni reynslu þykir ekki ástæða til að taka of mikið mark á niðurstöðum dýratilrauna þegar áhrif á fóstur eru metin.
Ef þekkt væru dæmi um fósturskaða vegna notkunar lyfsins á meðgöngu kæmi það fram í opinberum textum um lyfið og aðvarnir um notkun væru afdráttarlausari.
 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur