Sertral og áhrif á upptöku í heila?

Spurning:
Ég er ungur maður sem er með ,,Panic-Attack“ og hef tekið Seroxat í einhvern tíma en það var ekki að skila tilætluðum árangri. En ég er byrjaður á Sertral og eftir því sem mér skilst á lækninum þá hefur það einhver áhrif á ,,dopamine“ og ,,noradrenalin“ upptöku í heila. Er það rétt? Málið er nefnilega það að ég var að misnota efni á við kókaín, amfetamín, MDMA (MDEA) nánar tilgreinst sem e-pillur á unglingsárum ásamt skynvilluefnum. Getur verið að þessi neysla hafi hreinlega haft krónísk áhrif á boðefnakerfið í heilanum þar sem þessi efni dæla eimitt boðefnunum út í líkamann sérstaklega kókaínið og amfetamínið. Ég er hyperaktívur fjölskyldumaður sem virðist detta stundum í lægðir (depression) mjög hratt en síðan er ég yfirleitt þess á milli á við 2 framkvæmdarstjóra. S.s. er Sertral betra lyf með tilliti til dopamine, noradrenalin og serotonin heldur en Seroxat miðað við mína misnotkun á unglingsárum. Við erum að tala um 8 ár síðan að ég hætti að misnota þessi efni fyrir fullt og allt.

Svar:

Sertralín, sem er virka efnið í lyfjunum Sertral og Zoloft, er notað við þunglyndi í ýmsum myndum með og án maníu. Það er einnig notað við felmtursröskun (panic disorders).
Aðalvirkni þess er að hemja endurupptöku serótóníns í taugum sem leiðir til aukinna áhrifa þess. Sertralín hefur einungis mjög væg áhrif á endurupptöku noradrenalíns og dópamíns í taugar.
Í rannsókn þar sem gerður var samanburður á misnotkunarhættu sertralíns, og lyfja með þekkta misnotkunarhættu í mönnum, hafði sertralín engin áhrif sem bentu til misnotkunar. Sertralín hafði hvorki örvandi áhrif né olli það kvíða eins og d-amfetamín né róandi verkun eða truflaði skynhreyfingar eins og alprazólam. Sertralín verkar ekki sem örvi á rhesus apa sem þjálfaðir eru í að skammta sér sjálfir kókaín né heldur getur það komið í staðinn fyrir d-amfetamín eða fenóbarbítal í rhesus öpum.
Engin ástæða ætti því að vera fyrir þig að hafa áhyggjur af því að nota sertralín vegna fyrri misnotkunar þinnar á fíkniefnum.
Enginn vafi er á því að neysla fíkniefna eins og þú segir frá getur haft langvarandi áhrif á boðefnakerfi heilans. Hvort þau einkenni sem þú lýsir stafa af þessarri neyslu eða einhverjum öðrum ástæðum get ég ekki dæmt um.
 
Finnbogi Rútur, Lyfjafræðingur.