Sjóntruflanir – hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Ég hef undanfarið fengið sjóntruflanir af og til sem lýsa sér þannig að
skyndilega sé ég nokkurs konar glampa (eins og stjörnuljósaglæringar),
stundum eins og hring á stærð við krónupening eða strik og þetta flassar
fyrir augum mér í ca. 10-15 mínútur. Þetta hefur komið fyrir svona 7-8
sinnum á síðustu tveimur mánuðum og veldur mér miklum óþægindum. Ég reyni þá
yfirleitt að loka augunum og leggjast fyrir og bíða eftir því að þetta líði
hjá, en það getur auðvitað verið erfitt í vinnunni. Enginn höfuðverkur
fylgir. Þetta gerist oftast þegar ég hef verið að reyna mikið á augun, t.d.
að aka í langan tíma, er þreytt eða sit lengi við tölvuskjáinn í einu eða
etv. í skærri birtu. Ég hef einnig fengið dofa í hendur og fætur og milli
augna en það gæti vel stafað af vöðvabólgu sem hefur hrjáð mig. Ég hef unnið
töluvert meira en fulla vinnu undanfarið ásamt því að sinna heimili og er
því undir töluverðu álagi. Það sem ég velti fyrir mér er auðvitað hvað þetta
gæti verið en var að spá í hvort ég ætti helst að fara til augnlæknis eða ??
(Hef aldrei notað gleraugu) Þetta ýtir að sjálfsögu undir ímyndunaraflið og
ég er annan hvern dag farin að ímynda mér að ég sé dauðvona sjúklingur,
ásamt því að hræðast mitt helsta atvinnutæki – tölvuna – og kvíða því hvar og
hvenær þetta gerist næst.

Ein ráðvillt.

Svar:

Komdu sæl.

Nokkrir möguleikar eru fyrir hendi hér og til að greina þetta að
fullnustu þarf að framkvæma nákvæma augnskoðun. Einkennin sem þú lýsir mjög
vel eru líkastir því sem kemur við svokallað glerhlaupslos. Augað er fullt
af glæru gellíku efni, sem kallast glerhlaup. Þessu má líkja við einskonar
glæra sultu í krukku. Með aldrinum skilur hlaupið sig stundum og getur þá
allt í einu skroppið saman og losnað frá veggjum krukkunnar. Eins er það
með glerhlaupið, nema hvað glerhlaupið er fast við sjónhimnuna á nokkrum
stöðum og getur þá togað í hana. Sjónhimnan er sérhæfð til að greina ljós
og þegar togað er í hana skynjar hún það sem ljós og sendir boð um það til
heilans. Glerhlaupslos getur staðið yfir í 1-2 mánuði, en sjaldnast lengur.
Í einstaka tilfellum getur glerhlaupið rifið í sjónhimnuna og valdið
sjónhimnulosi, sem er alvarlegt fyrirbæri. Því ráðleggjum við öllum sem
upplifa slíka glampa að fara þegar í stað í augnskoðun til að útiloka slíkt.

Annar möguleiki væri svokallað augnmígreni, sem lýsir sér sem glæringar og
sjóntruflanir fyrir báðum augum. Ef höfuðverkur fylgir í kjölfarið kallast
það klassískt mígreni. Hann þarf þó ekki alltaf að fylgja með. Augnmígreni
er oftast fremur saklaust fyrirbrigði, en gæti þurft meðferðar við ef köstin
eru tíð og þrálát. Taugalæknar eru sérfræðingar í mígreni.

Glerhlaupslos og sjónhimnulos valda glampa fyrir öðru auganu, en mígreni
veldur sjóntruflunum fyrir báðum augum. Ekki kemur fram í spurningu þinni
hvort sé, en eitt er ljóst: Þú þarft að bregða þér sem fyrst til
augnlæknis!

Bestu kveðjur og gangi þér vel,

Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf