Hvaða ráð er til þess að auka skeggvöxt?
Sæll og takk fyrir fyrirspurnina
Til eru allskonar fyrirtæki sem auglýsa ýmsar vörur (töflur, drykki eða krem) sem eiga að styðja við og auka hárvöxt, hins vegar skortir vísindalega sönnun og trúverðugleika bakvið þessar vörur.
Til eru sannanir fyrir því að D-vítamín geti örvað hársekki og þannig haft áhrif á hárvöxt. Einnig getur B-vítamín, B12, biotin og niacin styrkt hár.
Hins vegar ef líkaminn þinn getur ekki framleitt hár (vegna erfða) eru vítamín ekki að fara að koma hárvexti af stað.
Það er möguleiki að margir (alls ekki allir) sem eiga erfitt með að safna skeggi séu ekki að hugsa nægilega vel um heilsuna og er alltaf hægt að bæta leiðir til að hugsa betur um heilsuna. Eins og á við um hár á höfði, krefst skeggvöxur holls mataræðis og reglulegs svefns. Hér eru nokkur ráð sem geta nýst gagnleg til að draga úr hármissi og stutt við hárvöxt:
- Draga úr stressi og streitu.
- Regluleg hreyfing.
- Hollt mataræði. Í hollu og fjölbreyttu mataræði fær líkaminn þá næringu og vítamín sem hann þarf.
- Góð hvíld. Því betri svefn, því betri heilsa.
- Ekki reykja. Reykingar geta leitt til aukins hármissis.
Vonandi gagnast þetta þér, gangi þér vel.
Kveðja,
Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur