Skorinn magi

Spurning:

Kæra Ágústa!

Ég er 16 ára stelpa og hef æft íþróttir frá því ég var 8 ára. Ég æfði í 3 ár u.þ.b 10 sinnum í viku en hef minnkað það í 5-6 sinnum núna vegna tímaleysis. Ég hleyp og lyfti mikið en mér finnst ég samt alltaf vera ,,feit".Ég skil það ekki því ég borða mjög sjaldan nammi, drekk ekki gos og passa mig á sætindum. Mig langar að verða skorin, fá skorinn maga…. hvað er best fyrir mig að borða og hvað á ég að gera? Ekki get ég æft meira!

Kveðja,
bolla.

Svar:

Sæl ,,bolla"

Ef þú æfir 5-6 x í viku og borðar hollan mat ættirðu að vera í góðum málum. Þú minnist ekkert á þyngd og hæð og því spurning við hvað þú miðar þegar þú segir að þér finnist þú alltaf vera ,,feit". Fólk hefur mismunandi líkamsgerðir og það geta ekki allir auðveldlega orðið ,,skornir" nema með því að fara mjög róttækar leiðir s.s. að borða mjög lítið og æfa mjög stíft. Það er ekki góð né skynsamleg leið og dugar einnig skammt því enginn heldur slíkt lengi út. Margir lenda svo í því að fitna mjög skart aftur þegar slakað er á í neysluvenjum og æfingar minnkaðar. Það er líka hugsanlegt að þú sért að neyta of margra hitaeininga því þó að þú forðist sætindi og gosdrykki þá er líka hægt að fitna af hollum mat ef skammtar eru of stórir. Ef þú metur það sem svo að þú borðir hæfilega margar hitaeiningar miðað við þyngd og hæð og þú sért samt of feit myndi ég ráðleggja þér að leita til næringarfræðings til að fá nánari ráðleggingar.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson