Gott kvöld. Var að spá í tvennt. Er nýlega komin með undarlega þörf til að bíta fast saman tönnum og nudda tennur saman. Kemur inn á milli, er orðin þreytt í kjölkunum út af þessu og eins og ég þurfi að hvíla munninn. Langar líka til að blása lofti inn í munninn. Ég er að vísu með 4 brotna jaxla og suma illa brotna,svo þarf líka að rótfylla eina tönn og fá 3 krónur í hinar 3. Er lengi búin að vera með þær brotnar en er nú að stefna á að fara til Búdapest til tannsa. Að öðru fékk skyndilega vondan verk sem ég hef ekki áður fundið fyrir. Verkurinn er neðarlega í baki vinstra megin og liggur niður í mjöðm(eins og það hafi verið sparkað í mig,sem gerðist ekki) er búin að vera með hann í 2 tíma en er fyrst núna að lagast tók íbúfen og parasetamol.
Var bara að spá hvað væri í gangi með mig því ég hef líka verið með svima og flökurleika. Er í fullri vinnu og undir þó nokkru álagi en ég er 54 ára. Í haust byrjaði ég að taka conserta og hef fundið fyrir ákveðnum aukaverkunum en ekki eins og þetta. Hvað gæti valdið þessu ? Með fyrirfram þökk
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Varðandi fyrri hugleiðingu þína þá er ég ekki alveg viss um hvað þú ert að spyrja, en væntanlega ertu að spyrja útí þessa þörf til að bíta fast saman tönnum og nudda þær saman.
Margir gnísta tönnum í svefni en það veldur þrýsting á tennurnar, tanngarðinn, kjálkavöðvana og kjálkaliðinn. Þetta getur leitt til álagseinkenna eins og höfuðverkja, kjálkaverkja og slit á tönnum, nákvæmlega eins og þú ert að lýsa, þegar þú segir að þú sért svo þreytt í kjálkunum.
Og þú virðist gnísta tönnum að deginum svo þetta er meira en tannagníst í svefni, ekki nema von að þú sért þreytt.
Að gnísta tönnum er oft tengt álagi til dæmis í vinnu og / eða andlegu álagi. Það gæti etv hjálpað þær að gera slökunaræfingar og einnig að reyna að finna orsakir, svo sem er eitthvað í lífi þínu sem veldur þér auknu álagi en verið hefur. Þú nefnir einmitt að þú sért undir nokkru álagi. Geturðu breytt einhverju þar?
Einnig er hægt er að fá sérstaka góma hjá tannlækni sem minnka líkur á skemmdum á tönnum. Þú gætir skoðað það þar sem þú ert á leið til tannlæknis að láta gera við heilmikið.
Varðandi seinni fyrirspurnina með verkinn neðarlega í bakinu, þá gæti orsakir verið nokkrar. Stoðkerfið gæti td verið að kvarta eða verkir í nýra vegna þvagfærasýkingar gætu líka lýst sér svona. Og hugsanlega eitthvað allt annað.
Ég held ekki að hann tengist Concerta neitt enda er svo langt síðan þú byrjaðir að taka það. Ef verkurinn er enn að koma og fara, ráðlegg ég þér eindregið að fá tíma hjá þínum heimilislækni til að finna orsökina og meðhöndla verkinn.
Gangi þér vel
Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur