Spurning:
Kæri læknir,
Ég væri mjög þakklát ef þú gætir gefið mér hugmynd um skýringu á eftirfarandi einkenni sem ég hef. Undanfarin 2 ár hefur komið við og við slím með hægðum, en undanfarna mánuði kemur það nánast í hvert sinn sem ég hef hægðir og stundum í stað hægða, þe mér verður mál að fara á klósettið en ekkert kemur nema svolítið slím. Ég er tæplega fertug og hef haft viðkvæman ristil í 22 ár eftir að ég fékk svæsna Dalacin eitrun (sem drap niður í mér alla flóruna). Var síðan með slæma ristilbólgu og krampa í 5 ár á eftir. Ég hef fengið við og við bólgur síðan. Móðir mín lést fyrir nokkrum árum m.a. úr ristil krabba.
Niðurstaðan er að ég geri mér grein fyrir því að ég þarf að fylgjast með mér. Ég hef þó engar stórfelldar áhyggjur af sjálfri mér en vil vera ábyrg og athuga málið.
Getur þú gefið mér hugmynd um hvað er algengt að valdi svona slímmyndun?
Svar:
Slím í hægðum, án blóðs, hjá ungum einstaklingum er oftast saklaust. Það er vegna aukinnar slímmyndunar frá slímhúð ristilsins (innri þekja hans). Þetta fylgir oft ristilkrampa, sem er starfrænt (hreyfitruflun) vandamál ristilsins. Þú virðist hafa haft slíkt ástand. Trefjar og krampalosandi lyf laga oft þessar starfrænu truflanir og þá minnkar slímið, en það getur tekið marga mánuði að lagast. Þú hefur hins vegar aukna áhættu á að fá ristilkrabbamein, vegna fjölskyldusögu (faðir þinn greindist með sjúkdóminn). Ráðlegg þér þess vegna að ræða við lækni þinn um þína áhættu og væntanlegar rannsóknir á ristli. Vil benda þér á fræðslurit Vitundarvakningar um ristilkrabbamein, sem dreift hefur verið á öll heimili í landinu. Ef þú lest hann verður þú margs vísari.
Kveðja. Ásgeir Th