Slit í hryggþófa, má ég æfa?

Spurning:

Sæll.

Ég hef verið að fá óbærilega verki í mjóhrygginn undanfarið 1/2 ár (sem ég tel vera orsök leikfimisæfinga frá 1986). Í byrjun vikunnar fór ég í röntgen og kom þá í ljós að ég er með slit í hryggþófa milli L5 og S1. Mér var tjáð að það væri ekki hægt að gera mikið við þessu nema þá að æfa bak- og magavöðva, taka bólgueyðandi og nota nýrnabelti. Ef allt þryti þá væri spenging eina ráðið. Það sem mér láðist að spyrja lækninn var hvort of mikil hreyfing gæti gert þetta verra! Nú er ég mjög virk (sumir segja ofvirk), er að klifra, síga, fer í fjallgöngur með allt að 25 kg. bakpoka o.fl. Ég las greininna „Þursabit – Bakverkir” en þar segir ekki hvort of mikil æfing sé slæm.

Með fyrirfram þökk,

Svar:

Sæl.

Hrörnunarbreytingar í liðþófa, getur verið ein af orsökum bakverkja. Tognun á liðböndum og vöðvum veldur einnig sársauka. Slök liðbönd krefjast meiri vöðvavinnu af nærliggjandi vöðvum, hvort sem það er vegna hrörnunarbreytinga liðþófans eða tognunar á liðböndum og vöðvum. Ef vöðvar eru ekki nógu sterkir, þá sérstaklega bakvöðvarnir næst hryggnum, missa þeir mátt við að halda stöðugleika þessara hryggjaliða og sársaukinn eykst.

Æfingarnar verða að vera markvissar. Þú getur verið sterk í stóru yfirborðs bakvöðvunum, en það er ekki nóg. Þú þarft að styrkja sérstaklega dýpstu bakvöðvahópana. Einnig er mikilvægt að styrkja magavöðvana, eins og þér hefur verið sagt áður, því þeir halda við hrygginn að framanverðu.

Það er mikilvægt að þú hlustir á þinn eigin líkama og lærir að finna þín mörk. Til að byrja með á meðan þú ert að vinna þig út úr sársaukanum, er mjög mikilvægt að þú dragir út öllu álagi sem gefur þér sársauka. Sársauki er ekki aðeins viðvörun, heldur segir þér að þér hefur orðið á í messunni og hefur gert eitthvað rangt. Það er mikilvægt fyrir þig að finna hvernig þú getur hreyft þig án sársauka og forðast allt sem veldur sársauka. Eftir því sem batinn kemur, getur þú síðan jafnt og þétt aukið álagið.

Eins og líðan þín er í dag eru fjallgöngur með allt að 25 kg. bakpoka að sjálfsögðu ekki æskilegar. Þyngd bakpokans hefur að auki samþjappandi áhrif á liðþófann þinn sem er meiddur og einnig aukið álag á liðböndin og vöðvana. En það er ekki þar með sagt að þú getir ekki farið í fjallgöngur seinna meir, þegar þú ert búin að byggja þig upp.

Of mikið æfingaálag getur því skaðað þig og tafið fyrir að líkaminn jafni sig. Mikilvægt er að vera þolinmóð og taka eitt skref í einu og ætla þér ekki um of. Hóflegar æfingar og hreyfing ásamt skynsamlegu mataræði eru árangursríkustu leiðirnar til að öðlast sterkan og heilbrigðan hrygg. Gott er að leita eftir aðstoð hjá sjúkraþjálfara við æfingaval og kennslu í líkamsstöðu og beitingu.

Kveðja,
Steinunn Sæmundsdóttir sjúkraþjálfari, í Sjúkraþjálfun Styrks.