Sölt

Ég bý í heitu loftslagi og hreyfi mig á hverjum degi og svitna mjög mikið. Ég drekk mikið vatn 4 og hálfan liter á hverjum degi það virðist ekki duga til.

Hvað er til ráða með fyriram þökk

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

 

Það er mikilvægt að bæta upp vökvatapið ekki aðeins með því að drekka hreint vatn heldur líka vökva sem innihalda sölt, einkum natríum og kalíum, t.d. ávaxtasafa eða íþróttadrykki. Við mikla svitamyndum tapar líkaminn nefnilega ekki aðeins vökva heldur einnig ýmsum steinefnum svo sem natríum. Hreint vatn getur því í sumum tilfellum gert ástandið verra. Betra er svo að drekka fleiri minni skammta en að þamba mikið í einu.

Þorsti er ekki besti mælikvarði á vatnsbúskap líkamans. Mikill þorsti þarf ekki alltaf að þýða að maður eigi að drekka meira. Liturinn á þvaginu er oft betri mælikvarði. Ef vatnsbúskapurinn er eins og vera ber ætti þvagið að vera ljósgult eða nánast glært á litinn. Dökkgult og jafnvel brúnleitt þvag er aftur á móti merki um að líkamann skorti vatn.

Drykkir sem hægt er að fá sér til að bæta vökvatap eru t.d. Resorb sem er vökvauppbót og kemur jafnvægi á vökva- og saltbrigðir líkamans, fæst í apótekum og stórmörkuðum. Íþróttadrykkir eins og powerade, gatorade eða aðrir drykkir sem innihalda vítamín og steinefni er gott að grípa í með vatninu.  Sumir hafa líka verið að borða saltkex eða eitthvað saltað til að binda vökvann frekar í líkamanum. Einnig er hægt að fá salttöflur í apóteki sem bæta upp salttapið í svitanum.

 

Gangi þér/ykkur vel

 

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.