Spurning:
Sæll.
Ég á 5 ára son sem ég hef miklar áhyggjur af. Fyrir um það bil mánuði
síðan byrjaði hann upp úr þurru að vera með mikið augndepl sem er mismikið
en alltaf eitthvað daglega. Ég fór að taka eftir þessu vegna þess hversu
mikið hann blikkaði augunum, meira en eðlilegt gæti talist að mér finnst. Ég
hef verið að spyrja hann hvort hann klæji í augun eða kítli en hann svarar
því neitandi enda er ekkert sem kemur úr augunum þ.e. hvorki gröftur né
óvenjulega mikið af tárum eða neitt slíkt.
Mér datt í hug fyrst að hann gæti
verið með fjörfisk en mér finnst skrýtið að það sé þá ennþá eftir allan
þennan tíma og hann virðist ekkert kvarta undan þessu, eins og þetta sé bara
alveg ómeðvitað. Nú hef ég verið að reyna að fylgjast með þessu meðvitað og
hef séð að hann er betri á morgnana en kvöldin en þá blikkar hann mjög mikið
og er líka með eins og krampakendar augnhreyfingar.
Það er erfitt að lýsa
þessu en fólk er farið að taka eftir þessu og spyrja mig hvað sé að honum í
augunum. Nú er ég orðin verulega áhyggjufull sérstaklega þar sem mér var
bent á að þetta líktist fyrstu einkennum „Tourette syndrome“. Ég er ekki
alveg tilbúin til að kyngja því að þetta geti verið eitthvað svoleiðis en
veit ekki neinar aðrar ástæður fyrir þessu. Hefur þú með einhverjar skýringu á þessu? Er mögulegt að hann sé með augnþurrk eða eitthvað slíkt?
Takk fyrir.
Áhyggjufull móðir.
Svar:
Sæl og blessuð.
Ég skil mætavel áhyggjur þínar vegna þessa. Við blikkum oftast á 10
sekúndna fresti og veitum því lítinn gaum. Hins vegar getur það orðið
áberandi ef við blikkum oftar en þetta og er það ekki óalgengt meðal barna.
Ástæður þess geta verið mismunandi – oftast meinlausar. Í nýlegri rannsókn
voru um 100 börn með sögu um ofblikk, eða „excessive blinking“. Flest
þeirra blikkuðu með báðum augum. Algengustu orsakir voru þessar:
1. Kækir – algengir meðal barna og unglinga og hverfa oftast. Talað er um
að í kringum 10% barna fái kæki sem hverfa innan árs. Ef þeir eru til
staðar lengur en í ár kallast þeir langvarandi, eða „krónískir“ kækir.
Innan við eitt prósent barna fá „króníska“ kæki. Aðeins lítill hluti þeirra
verður síðan meira áberandi með öðrum kækjum til viðbótar og þróast yfir í
það sem kallast Tourette heilkenni.
2. Sjónlagsgallar – nærsýni, fjarsýni eða sjónskekkja.
3. Slímhimnubólga
4. Spenna eða andleg vanlíðan
5. Rangeygni/tileygni, oftast að annað augað leiti út á við.
Í 6 af þessum 100 börnum var um að ræða sjónlagsgalla eða rangeygni sem
auðvelt var að greina og lagfæra. Ég ráðlegg þér því eindregið að leita til
augnlæknis vegna þessa til að útiloka slíkt. Ef kækirnir versna eða
breytast ekki yfir marga mánuði skaltu leita til heimilislæknis þíns eða
barnalæknis.
Bestu kveðjur og gangi þér vel,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.