Sonur minn er með Latexofnæmi?

Spurning:
Sonur minn er með latexofnæmi og stundum mjög slæmt. Hann  hefur verið með ofnæmi síðan hann var lítill. Þegar hann var fjögurra ára fór hann í ofnæmispróf og þá voru prófuð 12 atriði, þessi venjulegu, ryk, dýrahár og fleira en ekkert kom út úr því. Nú í vor byrjaði hann í tannréttingum og þá versnaði þetta til muna. Hann hefur fengið svo slæm köst að hann hefur þurft að fá stera til að ná bólgunni niður. Mig vantar upplýsingar um latexofnæmi, í hverju það er og hvað best er að forðast. Ég hef hvergi fundið upplýsingar um þetta þótt mér skiljist að það sé ekki óalgengt. Er latex í plastleikföngum, símasnúrum, einhverjum fatnaði? Hvað get ég gert til að hjálpa honum, stundum hef ég miklar áhyggjur því að það er erfitt að vera alltaf á ofnæmislyfjum og þetta háir honum í leik og starfi. Hann hefur auðvitað áhyggjur af því að hann fái ofnæmiskast í skólanum og svo framvegis.

Gott væri að fá upplýsingar, ég væri mjög þakklát.

Svar:
Heil og sæl Þetta er í raun ansi alvarlegt mál því það er latex svo víða. Latex er öðru nafni gúmmí, þ.a.l. gúmmíhanskar, blöðrur, teygjur í buxum og svo ótal margt annað í umhverfinu, jafnvel teygjurnar sem notaðar eru við tannréttingarnar. Einnig er nauðsynlegt að láta vita af þessu ef hann t.d. þarf einhvern tímann að fara í aðgerð eða leggjast inn á spítala því það eru notaðar annars konar vörur fyrir þá sjúklinga sem eru með latex ofnæmi Einnig ættir þú að athuga hluti eins og brennóbolti, túttubyssur, skór o.s.frv. getur allt hugsanlega inniheldið latex og svo verður þú bara að fara að horfa á umhverfið og þá sérstaklega heima hjá ykkur öðrum augum og eins í skólanum. Latexofnæmi getur að sjálfsögðu verið misslæmt, en hafi hann klárlega ofnæmi, ekki bara óþol þá skaltu taka það sérstaklega alvarlega og reyna að gera allt til að gera hans nánasta umhverfi Latexfrítt.

Með kveðju og ósk um gott gengi
Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur Doktor.is