Spurning:
Kæri læknir!
Ég á 13. ára son sem er mikið í íþróttum.
Hann kvartar um andþyngsli þegar hann er í innanhússíþróttum, honum fer að líða illa og þarf að leggjast fyrir. Hann talar um að hann fái ekki nóg súrefni. Þetta áberandi þegar æfingarnar fara fram innanhúss og hans hópur er að taka við salnum af öðrum hópi. Hann var í eftirliti fyrir nokkrum árum vegna óhljóðs í hjarta en læknirinn taldi hann ekki þurfa frekara eftirlit, þetta væri ekki það mikið. Hvað á ég að gera? Er ástæða til að ég hafi samband við hjartalækninn hans?
Strákurinn er í góðu formi og æfir mikið, 3-4 sinnum í viku fyrir utan skólasund og skólaleikfimi.
Hann samsvarar sér vel og er ekki þyngri en eðlilegt er.
Það væri gott að fá ábendingu um hvað ég ætti að gera.
Með fyrirfram þökkum.
Áhyggjufull móðir.
Svar:
Sæl.
Sonur þinn virðist við góða heilsu hraustur og þolinn, tilefni til rannsókna er varla fyrir hendi. Tímabundið álag getur stundum birst með þessum hætti.
Hann var þó í eftirliti vegna hljóðs frá hjarta og því er ekki óeðlilegt að tala aftur við lækninn, þér mun sennilega líða betur á eftir.
Kveðjur,
Uggi Agnarsson, læknir Hjartavernd