Sonur okkar á það til að slá

Spurning:

Góðan daginn.

Mig langar til að spyrja út i hegðun sonar míns sem er tveggja ára gamall. Hann er glaður og orkumikill strákur, og að jafnaði ljúfur. Þó á hann það til að slá. Hann á það til að slá okkur foreldrana ef vid skömmum hann. Hann á þetta líka til þegar við erum að leika (eða hann leikur einn), þá fer hendin allt í einu á loft og slær. Okkur finnst þetta voða leiðinlegt og sýnum honum alltaf að þetta sé óásættanlegt og það sé ljótt að slá. Vid höfum aldrei slegið hann svo að það sé á hreinu. Við höum spurt á vöggustofunni (fyrir 6mán – 3 ára) og fóstrurnar segja að þar slái hann aldrei. Hann slær okkur foreldra sína, og vinkonu sína sem er á svipuðum aldri. Í sumar vorum við í heimsókn hjá litlum frænda sem var þá 10 mán. og strákurinn okkar var oft staðinn að því að slá eða að reyna að slá hann. Við höfum ekki talað við neinn sérfræðing um þetta, flestir í kringum okkur segja að þetta sé bara tímabil sem gangi yfir. En þetta er búið að vera svona í marga mánuði. Stundum kemur skömmustusvipur á hann þegar hann er búinn að slá, stundum bara hlær hann. Við reynum alltaf að halda ró okkar og útskýra fyrir honum að það sé ljótt að slá. En stundum byrstum við okkur líka við hann. Hvað er til ráða?

Bestu kveðjur.

Svar:

Kæru foreldrar.

Það er nokkuð rétt sem þið hafið heyrt að það er ekki óalgengt að yngri börn eigi það til að slá aðra, bæði fullorðið fólk og börn. Ef málin eru skoðuð nánar er ástæðan m.a. sú að sjálfsmynd barnanna er í grunnmótun fyrstu árin þ.á.m. er tilfinningalífið sveiflukenndara. Þau upplifa andartakið sterkar en þeir sem eldri eru, og bregðast því oft harðar við mótlæti í einhverri mynd, oft án þess að taka tillit til orsaka og afleiðinga. Oft afmarkast þessi viðbrögð við þá sem börnin eru tilfinningalega tengdust eða í sambandi við hegðun þeirra. Þess vegna koma þessi viðbrögð þeirra ekki endilega fram í leikskólum og þar sem hópagi gildir. Einnig verður að taka tillit til einstaklingsbundinnar skapgerðar. Mótlæti í augum (og upplifun) barna getur falist í ónógri athygli foreldra; afbrýðisemi gagnvart öðrum börnum, sem fá athyglina sem þau vilja fá; vonbrigði yfir því að geta ekki gert það sem þau vilja geta gert o.s.frv. Þessi listi getur orðið langur.

Af þessu má ráða að yngri börnin láta stundum í ljósi viðbrögð við meintu mótlæti með því að slá frá sér án þess að hafa nægilega mótaða hugsun til að draga ályktanir eða að sjá hlutina í víðara samhengi.

Foreldrar geta að minnsta kosti gert tvennt:
a) Lagt megináherslu á hvað barnið eigi að gera og umbuna fyrir það, í stað þess að undirstrika hvað það eigi ekki að gera og „refsa” fyrir það. Þetta gefur börnunum kost á að tengja saman æskilega hegðun og vellíðan, þótt bönn við að slá hverfi ekki. Þau geta einfaldlega þurft að læra æskilega hegðun með þéttri stýringu foreldra þar sem meginatriðið felst í því að tengja saman rétta hluti.
b) Leggja mikla áherslu á sérstöðu barnsins og styrkleika: „Að hann sé stóri strákurinn ykkar” og að litli 10 mánaða frændinn (sem hann er líklega afbrýðissamur út í) sé lítill, geti lítið sjálfur og þurfi þess vegna svona mikla hjálp á öllum sviðum. Það sé ólíkt með hann sjálfan, því hann geti svo margt o.s.frv.

Ég vona að svarið hvetji ykkur foreldra áleiðis í upppeldinu.

Einar Ingi Magnússon, sálfræðingur.