Spurning:
Við eigum rúmlega árs gamlan dreng sem er með lágan krampa þröskuld og hefur fengið 5 hitakrampa á 7 vikum. Kramparnir eru mis langir frá 2mín og upp í 4 mín (Þá höfum við gefið honum stesolit). Hann hefur verið fluttur 3 sinnum með sjúkrabíl til á spítala og hefur verið undir eftirliti lækna á Borgarspítalanum. Nú er hann komin á lyf sem heitir Fenemal 50mg (hann er 10,7kg) og vorum við vöruð við því að þessi lyf gætu haft örfandi áhrif á litla drengin okkar og jafnvel ofvirkni á meðan á tökum lyfsins stæði. En málið er það að hann er nú búin að taka lyfið í viku og virðist sem lyfið hafi þau áhrif á hann að hann þarf að sofa „heil ósköp“ Hann svaf alltaf til 7 – 8 á morgnana og lagði sig frá 13 til 15 en nú á hann það til að sofa til hádegis og sofa í hátt í 3 tíma á dagin.
Í dag svaf hann td. til 9:30 var samt orðin þreyttur um 10 en ég hélt honum vakandi til 12:30 og hann var vakinn rúml. 16:00. Er þetta eðlilegt ?? Við vorum að afla okkur upplýsinga á netinu og það eina sem við fundum var að þetta væri svefnlyf sem gæti haft eitrun í för með sér sem gæti leitt til dauða (Kom fram að einn maður léti lífið á íslandi á ári af þeim völdum). Við trúum ekki öðru en þá sé verið að tala um fólk sem gleypi heil ósköp af þessu í einu..
Eða hvað… Nú vantar okkur álit óháðs læknis og bindum vonir við að þið getið gefið okkur einhver svör og kannski upplýsingar um hvað við getum gert í stöðuni
Svar:
Fenemal eða fenóbarbital eins og virka efnið heitir í dag, er úr flokki svokallaðra barbitúrsýra. Þannig lyf voru notuð sem svefnlyf áður fyrr en er lítið gert af því í dag eftir að önnur og hentugri lyf hafa komið á markað. Fenemal hefur þó ekki verið notað sem svefnlyf þar sem það er langverkandi og hentar því ekki til þeirra nota. Það hefur aftur á móti verið notað mjög lengi sem sem lyf við flogaveiki og krömpum af öðrum orsökum. Mikil reynsla er því til af notkun lyfsins fyrir alla aldurshópa. Syfja og lækkað meðvitundarstig er mjög algeng aukaverkun enda tengd verkun lyfsins og því háð skammtastærðinni. Þetta hverfur þó venjulega á nokkrum vikum vegna þolmyndunar.
Það er rétt að dauðsföll sem kunna að hafa orðið vegna töku þessa lyfs eru vegna mjög stórra skammta. Talað er um banvænan skammt fyrir fullorðna 5-10 g, en það svarar til 100-200, 50 mg taflna í einum skammti. Rík ástæða er því að geyma þetta lyf eins og öll önnur lyf, þar sem börn ná ekki til. Það er ekki óeðlilegt að þið hafið áhyggjur af því að þurfa að gefa barninu lyf sem telst til lyfjaflokks sem hefur fremur slæmt orð á sér eins og á við um barbitúrsýrur. En vegna verkunarmáta fenemals á þetta ekki nema að litlu leyti við um það. Eitt er víst að kramparnir eru barninu mun hættulegri en aukaveranri lyfsins.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur