Spurningar um fósturlát

Spurning:

Góðan dag.

Ég er hér með nokkrar spurningar í tengslum við fósturlát. Núna nýlega missti ég fóstur eftir tæplega 16 vikna meðgöngu. Svo virðist sem barnið hafi verið dáið í einhvern tíma en þó ekki lengur en 3 vikur þar sem ég hafði þá farið í skoðun og hjartsláttur var greindur. Þegar ég var gengin 12 vikur blæddi hjá mér og fór ég þá í sónar en allt leit vel út. Getur verið að það hafi verið of mikið álag á barnið og það ekki þolað blæðinguna? Af hverju? Er ekki hægt að greina kyn barnsins?

Þegar fósturlát verður og maður þarf að fara í útskröpun er barnið og allir vefir sendir í rannsókn. Af hverju þarf maður að ganga sjálfur á eftir því að fá niðurstöður? Þetta er í annað sinn sem ég missi fóstur enn í fyrra skiptið var ég gengin helmingi styttra. Mér fannst það skipta mig öllu máli í seinna skiptið að fá að vita hvað var að. Ég var ekki svona þenkjandi eftir fyrra fósturlátið enda eru fósturlát býsna algeng fyrstu 12 vikurnar og ég ein af þeim konum sem varð fyrir þvi. En það er samt missir. Maður þarf að vera harður og frekur í þessu íslenska heilbrigðiskerfi til að fá það sem maður getur sætt sig við.

Með kærri kveðju og von um góð svör.

Svar:

Sæl.

Það er erfitt að missa fóstur þetta langt gengin. Hvort blæðingin var undanfari fósturdauðans er erfitt að vita, en þó ekki ólíklegt að eitthvað hafi fylgjan losnað og því blætt frá barninu þarna við 12 vikurnar. Það sést þó ekki endilega í skoðun á fósturvefnum og oft er erfitt að greina orsök fósturláts ef ekki er um greinilegan fósturgalla að ræða. Eins getur verið erfitt að greina þetta þegar svo langt er liðið frá fósturdauðanum. Ef þú vilt vita kyn fóstursins er það hægt með litningarannsókn (sem er mögulegt að hafi verið gerð hvort eð er til að greina hvort um litningagalla hafi verið að ræða).

Sá fæðingarlæknir sem sinnti þér þegar þú fórst í útskröpunina ætti að geta skýrt út fyrir þér niðurstöður úr þeim rannsóknum sem gerðar voru á fóstrinu. Oft er það svo að niðurstöður berast læknum seint og það er vitaskuld ekki nógu gott ef læknirinn hefur ekki samband við þig þegar niðurstöðurnar berast. Láttu hann vita að þú sért ekki ánægð – einungis þannig er hægt að breyta hlutum til betri vegar.

Vona að þetta fari allt á besta veg,

Dagný Zoega, ljósmóðir