Spurningar um svefnlyfið Lunesta?

Spurning:
Hvað getið þið sagt mér um svefnlyfið Lunesta?  Er reynslan af því góð?  Verður það sett í umferð á Íslandi á næstunni?

Svar:
Lunesta sem kom á markað í Bandaríkjunum fyrir ári síðan, inniheldur virka efnið eszopiclone. Fyrir eru á markaði hér svefnlyfin Imovane og Zopiklon NM Pharma sem innihalda virka efnið zopiclone.  Zopiclone og eszopiclone eru efnafræðilega eins. Zopiclone er blanda af zopiclone sem snýr skautuðu ljósi til hægri og spegilmyndinni sem snýr skautuðu ljósi til vinstri. Eszopiclone er hins vegar bara önnur spegilmyndin (vinstri snúandi (S)).  Oft er um það að ræða að önnur spegilmynd efna er virkari en hin, þannig að fræðilega getur aðeins þurft helminginn af því efni til að fá fram sömu verkun og af blöndunni. Hins vegar hafa ýmsir aðrir þættir áhrif á þetta og því ekki hægt að alhæfa neitt um verkunina. 
Í þeim upplýsingum sem ég hef séð er ekki hægt að sjá hvort verulegur munur er á verkun zopiclone og eszopiclone. Fullvíst má þó telja að verkun þessara lyfja sé svipuð.  Þar sem zopiclone virðist ekki hafa verið á markaði í Bandaríkjunum, er tilkoma Lunesta tvímælalaust góðar fréttir þar. Þar sem zopiclone hefur hins vegar verið á markaði í Evrópu í meira en 10 ár, er þörfin fyrir Lunesta mun minni hér.
Ég fæ heldur ekki séð að Lunesta sé á markaði neins staðar í Evrópu ennþá.  Ég á því ekki von á því að Lunesta komi á markað hér á næstunni.  Ekki er komin löng reynsla af Lunesta ennþá, en Imovane hefur verið lengi á markaði og er reynslan af því almennt frekar góð.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur