Spurningar varðandi B-12

Spurning:
Fyrst og fremst, hvað telst vera eðlilegt magn B-12 í blóðinu (þar sem ég hef heyrt mismunandi tölur hjá læknum og úr öðrum heimildum)? Ég er grænmetisæta og fræddi mig um þetta málefni sjálf og hef komist að því að það sé til gervi-B-12 sem mælist sem B-12 í blóðprufum en heftir í rauninni starfsemi B-12 og að einu öruggu leiðirnar til að mæla hvort sjúklingur hefur haft langvarandi B-12 skort, er að mæla magn homocysteine eða það sem er enn nákvæmara, magn methylmalonic sýru (MMA). Mikilvægt er fyrir grænmetisætur að láta tékka á homocysteine magninu einnig út af því að of hátt magn er talið auka líkurnar á t.d. hjartasjúkdómum. Ég vil fylgjast með þessu en mæti allsstaðar mótstöðu þar sem læknar hreinlega trúa ekki upplýsingunum mínum og vilja ekki mæla homocysteine magnið þó ég biðji sérstaklega um það. Eru upplýsingarnar mínar réttar? Heimildir: t.d. http://www.veganhealth.org/everyvegan kærar þakkir, grænn besservisser

Svar:

Komdu sæl.

Ég hef ekki tölur yfir hvað telst vera ,,eðlilegt” magn B-12 í blóðinu. 

B-12-vítamín er einstakt að því leytinu að virkt form þess er eingöngu að finna í dýraafurðum. Grænmetisætur sem neyta engra dýraafurða þurfa því að nálgast vítamínið með því að neyta þess í formi fæðu eins og sojamjólkur sem hefur verið vítamínbætt B-12 vítamíni eða neyta þess í fæðubótarformi. Það tekur einstaklinga, sem hætta að neyta B-12-vítamíns, allt að 20 ár að þróa hjá sér skortseinkenni vegna þess að líkaminn ,,endurnotar” það B-12 sem fyrir er í líkama aftur og aftur. Jafnvel þegar líkaminn af einhverjum ástæðum nær ekki að endurnota vítamínið tekur það allt að þrjú ár fyrir skortseinkenni að koma fram þá vegna þess að líkaminn nær að nýta mjög vel þær birgðir sem fyrir eru. Þrátt fyrir þetta áttu að sjálfsögðu að neyta reglubundið fæðu sem hefur verið vítamínbætt af B-12.

Þess má geta að sjúkdómur sem kallast blóðhvarf (pernicious anemia) og er alvarleg tegund blóðleysis og tengist skorti á B-12 er ekki til komið vegna ónógrar neyslu vítamínsins heldur annarra þátta (svo sem erfðaþátta) sem hafa áhrif á uppöku og nýtingu vítamínisins í líkama.

Ég vil hvetja þig til að taka mark á þeim læknum sen þú hefur rætt við og ef blóðmagn líkamans hefur mælst eðlilegt þarftu engar áhyggjur að hafa varðandi B-12. Þar að auki en mun algengara að ástæða blóðleysi séu aðrir næringarþættir eins og skortur á járni.

 

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur