Spurning:
Spurningar mínar varða frjósemi. Í fyrsta lagi vil ég vita hvort það geti haft skaðleg áhrif á sáðrásir að stöðva sáðlát með því að þrýsta á rót limsins. Ég hef gert þetta í mörg ár og þannig komið í veg fyrir sáðlát þegar ég stunda sjálfsfróun og fæ fullnægingu. Nú fýsir mig að vita hvort þetta geti mögulega haft skaðvænleg áhrif á frjósemi mína. Ég og konan mín höfum reynt að eignast okkar fyrsta barn í næstum því ár og ekkert hefur gerst ennþá. Gæti þetta hafa skaðað mig að einhverju leyti?
Í öðru lagi er vert að nefna að ég fékk lekanda fyrir mörgum árum og fór til læknis nokkrum vikum eftir að einkennin komu. Ég las einhvers staðar að kynsjúkdómar geta leitt til ófrjósemi karla því sáðrásirnar skemmast ef þetta er ekki læknað strax. Bæði þessi reynsla mín af lekanda og svo pælingar mínar um skaðsemi þess að þrýsta á sáðrásir og stoppa sáðlát við fullnægingu vekja hjá mér hræðslu um að ég geti kannski ekki eignast börn með ástinni minni. Vonandi getið þið gefið mér svör sem fyrst. Hvert hringi svo ég til að fá tíma í formlegri sæðisrannsókn? Takk fyrir.
Svar:
Engar líkur eru í raun á því, að slíkur háttur sem þú lýsir, valdi skaða á sáðrásum þar sem sæðisvökvinn sprautast út innan við þann stað þar sem þú þrýstir væntanlega á liminn eða þvagrásina. Rétt er að kynsjúkdómar geta valdið skerðingu á frjósemi og fyrsta atriðið t. a. komast að því hvort þú hafir eðlilegt sæði er að skila sæðisprufu í samráði við heimilislækni eða t.d. þvagfærasérfræðing. Eðlilegt má teljast að þú verðir skoðaður af áðurnefndum lækni eða læknum fyrir væntanlega sæðisprufutöku og getur þá annar hvor þeirra gengið frá sæðisprufurannsókn fyrir þig. Almennt eru menn látnir vera í ,,sæðislosunarbanni“ eða samfarabindindi í 4-6 daga fyrir sæðisprufu.
Bestu kv.,
Valur Þór Marteinsson