Spurningar varðandi meðgöngu?

Spurning:
Komdu sæl Dagný!

En er ég komin með fleiri spurningar sem varða meðgönguna hjá mér, ég vona að þú sért ekki orðin leið á mér. Ég og maðurinn minn erum að fara til Kanaríeyja núna í desember og ég var að spá í hvort það væri ekki allt í lagi fyrir mig að fljúga þessa löngu leið þó að ég sé barnshafandi??? (Er komin á 20 viku), og svo er eitt annað í sambandi við þetta, veldur það einhverjum skaða hjá barninu þó að ég fái mér eitt rauðvínsglas með matnum, ég er ekki að meina á hverjum degi heldur kannski bara einu sinni eða tvisar yfir alla ferðina og svo koma náttúrulega jólin, ég hef fengið mér rauðvínsglas áður en ég fór í sónar en það var allt í fína lagi með mig og barnið, að vísu var svolítið langt frá því að ég fékk mér þetta glas???? En hvað með eitt glas af sterkara víni????

Ég bý úti á landi og mig langar til að eiga barnið mitt í Reykjavík, hvenær á ég að segja ljósmóðurinni minni það?? Ég hef heyrt talað um eitthvað sem heitir MFS hvað er það eiginlega og er það fyrir einhverja sérvalda?? Svo var ég að lesa einhversstaðar um eitthvað sem heitir Hreiðrið á Landaspítalanum (er þetta ekki rétt hjá mér?)fyrir hverja er það er það fyrir allar konur eða.., og hvernig virkar það, er maður þar í einhverja daga eða…???? En ef maður er bara á venjulegri deild er manni þá hent út eftir einn eða tvo daga???

Ég er með fyrsta barn og langar kannski ekki alveg að fara heim strax, vil ekki fara fyrr en ég er örugg með að geta sinnt því rétt og þessháttar?? Kostar eitthvað að eiga barn á spítalanum, ég meina þarf maður að borga fyrir að liggja þarna??

Ég held að það sé komið nóg í bili Með von um svar sem fyrst.

Svar:
Mér sýnist á spurningum þínum að þú þurfir að ræða vel og vandlega við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni – bæði um meðgönguna og fæðinguna og svo ættirðu endilega að afla þér sem bestra upplýsinga um umönnun ungbarna úr bókum og af netinu áður en krílið kemur í heiminn. Þannig verðurðu líka öruggari með þig sem fæðandi kona og móðir. En ég skal svo sannarlega halda áfram að svara spurningunum þínum eftir því sem við á.

Það er ekki talið skaðlegt fyrir meðgönguna að fljúga í þrýstijöfnuðum flugvélum eins og notaðar eru í millilandaflugi. En þar sem þetta er langt flug er nokkur hætta á að blóðtappar geti myndast í fótum og því skaltu passa þig á að drekka vel af vatni og standa upp, teygja á kálfunum og hreyfa þig reglulega báðar leiðirnar. Eins er talið fyrirbyggjandi að taka inn barnamagnyl(125mg töflur) hálfa töflu daginn fyrir flug og hálfa daginn sem flogið er. Það þynnir aðeins blóðið og dregur úr blóðtappahættu. Varðandi áfengisnotkun á meðgöngu er ekki vitað hvar mörkin liggja milli skaða og skaðleysu þannig að best er að sleppa allri áfengisnotkun á meðgöngu.

Vil ég benda þér á nýjan bækling Landlæknisembættisins, Vímuefni og meðganga, en afrit af honum geturðu fengið hér á Doktor.is. Hafirðu hug á að fæða á Landspítalanum skaltu bara ræða það sem fyrst við þína ljósmóður. Margar konur utan af landi kjósa að liggja 3 daga sængurlegu á sjúkrahúsinu hafi þær ekki kost á heimaþjónustu ljósmóður í sinni heimabyggð eða ef langt er heim. Þá liggja þær á 2 – 5 manna stofu á sængulegudeild 22-A. Hreiðrið er blönduð fæðinga- og sængulegudeild fyrir þær konur sem fara heim innan sólarhrings og þiggja heimaþjónustu ljósmóður. MFS er þjónustuhópur ljósmæðra á Landspítalanum sem sinnir konum í öllu barneignarferlinu þannig að konan þekkir ljósmóðurina sem er með henni í fæðingu og kemur heim að henni lokinni í sængurlegunni. Þetta er einungis hægt búi konan á Reykjavíkursvæðinu. Fæðingaþjónustan er, eins og meðgönguþjónustan og ungbarnaverndin, ókeypis.

Ræddu þetta allt og deildu væntingum þínum með ljósmóðurinni þinni í mæðraskoðun. Hún getur örugglega látið þig fá einhverja bæklinga eða blöð um þetta allt saman.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir