Stanslaus þreyta á meðgöngu

Spurning:
Mig langar að spyrja um stanslausa þreytu á meðgöngu. Núna geng ég með mitt annað barn og finnst mér þessi meðganga alveg vera að ganga frá mér. Þegar ég gekk með strákinn minn fann ég fyrir þreytu svona fystu 2-3 mánuðina en var svo þvílíkt hraust og hress sem eftir var, raun aldrei verið hressari. Núna er ég komin 5 mánuði á leið og ég er alltaf þreytt og hef nánst ekkert úthald, sem mér finnst mjög óþægilegt þar sem ég er með 3 ára gutta sem er mjög mikill orkubolti. Ég er búin að láta mæla í mér blóðið og þjáist ekki af járnskorti sem mér fannst kannski vera líklegast er reyndar með frekar lágan blóðþrýsting en var það líka á fyrri meðgöngu. Mér finnst þetta afar óþægilegt þar sem ég kem nánast engu í verk, finnst ég vera allt of fljót að þreytast get varla sett í þvottavél án þess að verða þreytt, samt passa ég mig að hreyfa mig með því að fara í sund á morgnanna og að ganga ef ég hef úthald og snemma að sofa (nánast alltaf sofnuð fyrir 11 og vakna um 8 leytið). Langar að spyrja hvort þetta geti verið eðlilegt að vera svona úthaldslaus og þreyttur stanslaust. Er ekki vön að vera svona og finnst þetta afar óþægilegt.

Svar:

Það er alveg eðlilegt að vera þreytt á meðgöngu og þessi meðganga er ólík þeirri fyrri að því leyti að núna ertu með 3 ára orkubolta sem hindrar að þú hvílir þig þegar þú þarft. Þú hefur líka meira að gera núna með annað barn fyrir og þ.a.l. stærra heimili. Það eru t.d. helmingi meiri þvottar nú en þá, mun meiri matseld og tiltekt og svo eru það skutlingar hingað og þangað og allskyns áreiti sem fylgja því að eiga barn. Svo það má telja þetta eðlilegt. Finnist þér hins vegar þú vera allsendis ólík sjálfri þér og bara alls ekki höndla þessa meðgöngu má vera að líðanin sé meira sálarlegs eðlis. Það er alls ekki óalgengt að konur finni fyrir þunglyndi og kvíða á meðgöngu og mögulega getur það verið skýring á mikilli meðgönguþreytu.

Ræddu þetta við ljósmóðurina þína í meðgönguverndinni og sjáðu hvort ekki finnst lausn á þessu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir