Steypist út í fæðingarblettum

Spurning:

Góðan dag.

Ég er 24 ára gömul kona og á síðastliðnum mánuði hef ég steypst út í fæðingarblettum, þeim fjölgar stöðugt og eru um allan líkamann. Er þetta eðlilegt? Eða er eitthvað sem ég get gert? Þeir eru misstórir og koma mjög hratt, sumir upphleyptir og aðrir flatir, og í suma koma hár, svört og gróf.

Með von um skjótt svar!

Svar:

Sæl.

Fæðingarblettir aukast iðulega með aldrinum. Þeim fjölgar ef farið er mikið í sólbað eða ljós. Einnig fjölgar þeim á meðgöngu.

Ef haft er í huga hversu algengir fæðingarblettir eru á húð, er mjög sjaldgæft að illkynja breytingar verði á þeim. Helstu einkenni um illkynja breytingar í fæðingablettum er að þeir verða mjög dökkir, jafnvel blásvartir og sár kemur í þá sem grær illa.

Ekki er ástæða til meðferðar á fæðingarblettum. Ef þeir eru ljótir, eða þannig staðsettir að þeir valdi óþægindum má fjarlægja þá. Heimilislæknar frysta þá af eða skera. Það helsta sem þú getur gert til að minnka líkur á að blettunum fjölgi er að forðast mikil sólböð.

Kær kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir