Stíflur í munnvatnskirtli?

Spurning:
Mig langar að spyrja um munnvatnskirtilinn, einkenni á stíflum og steinum. Um daginn var mér sagt að ég væri of ung til að fá í munnvatnskirtil, það sama var sagt við mig eftir að mér var sagt að e.t.v. hefði ég ristil o.fl.

Svar:
Komdu sæl.
 
Ef um sýkingu í munnvatnskirtli er að ræða þá bólgnar kirtillinn og verður aumur og eitlar utan á hálsi geta stækkað. Gröftur úr kirtlinum losnar þá venjulega inn í munnholið og veldur óbragði. Oftast dugar að meðhöndla sýkingu með sýklalyfjum, en í einstaka tilfellum þarf að rannsaka ástand kirtilsins nánar. Ef kirtillinn er skemmdur getur þurft að fjarlægja hann að hluta til eða allan, aðrir munnvatnskirtlar taka þá við störfum hans.
Hins vegar geta steinar stíflað munnvatnskirtil einn eða fleiri og valdið því að munnvatnið seytlar ekki eðlilega fram og safnast fyrir fyrir aftan steininn og getur þannig valdið óþægindum. Sérstaklega einkennandi fyrir steina eða stíflur er að bólgan aukist við máltíðir. Nauðsynlegt getur verið að mynda svæðið og gera jafnvel skuggaefnisrannsókn til að greina þetta, en ef um stein er að ræða sem stíflar þarf að fjarlægja hann og í einstaka tilfellum getur þurft að gera smá aðgerð sem felst í því að gera nýtt op framhjá steininum og gera munnvatninu þannig kleift að komast leiðar sinnar. Steinar eru algengastir í kjalkabarðskirtlunum í munnbotninum.
 
Ég vona að þessar upplýsingar komi að gagni.
 

Með góðri kveðju,
 
Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
www.Doktor.is